Fréttir

Háskólasetur fær Jules Verne styrk og heimsókn frá franska sendiherranum

Háskólasetur Vestfjarða hlaut á dögunum Jules Verne styrkinn, en það er styrkur til vísinda- og tæknisamstarfs milli íslenskra og franskra aðila á grundvelli Jules Verne samstarfs samningsins. Styrknum er stýrt af rannsóknastjóra Háskólaseturs Vestfjarða, Dr. Catherine Chambers og Dr. Denis Laborde, þjóðfræðingi hjá frönsku rannsóknarstofnuninni fyrir vísindi. Verkefnið gengur út á að kanna sameiginlegan menningararf og sjávarminjar Íslands og Baskalands sem getur gegnt hlutverki í sjálfbærri samfélagsþróun. Verkefnið tengist stærra verkefni í Djúpavík sem kallast BASQUE. Á vef rannís um Jules Verne styrkinn kemur fram að markmiðið með samstarfinu við Frakkland er að virkja vísinda- og tæknisamstarf milli stofnana, skóla og rannsóknarhópa í báðum löndunum og að auðvelda samstarf við önnur samstarfsverkefni í Evrópu.

Horft til baka á árið 2023

Ef við horfum til baka á árið 2023 hafa því fylgt krefjandi fréttir á heimsvísu. Á slíkum tímum er mikilvægt að vekja athygli á góðum fréttum og afrekum. Hjá Háskólasetri Vestfjarða voru margar góðar stundir sem við munum varðveita í okkar minningum. Stærsti áfanginn okkar var opnun á nýju stútendagörðum Háskólaseturs Vestfjarða í haust. Að verða vitni að þeirri þróun sem kom frá hugmynd í áþreifanlegan hlut á einu ári var alveg frábært. Að takast á við svona flókið verkefni úti á landi sem var óútreiknanlegt, þarfnaðist mikillar samvinnu, þrautseigju og þolinmæði. Þetta var ekki einungis byggingarverkefni, heldur var þetta í raun þróun sjávarbyggðar í rauntíma.

Annar nemandi fær styrk

Emma Dexter, nemandi hjá Háskólasetri Vestfjarða í Sjávarbyggðafræði hefur hlotið styrk frá stjórn Byggðastofnunar upp á 330.000 kr til þess að vinna lokaverkefnið sitt. Hún hefur því bæst við í hóp nemenda Háskólaseturs sem nýlega fengu styrk til vinnu lokaverkefnis, sem fjallað var um nýlega hér. Emma mun rannsaka staðartengsl (place attachment) fólks sem býr á hættusvæðum vegna náttúruhamfara, til að mynda þekktum snjóflóðasvæðum. Hún mun einnig kanna vitund fólks á loftslagsbreytingum og mat þeirra á hamfarahættu á Íslandi. Þar að auki mun hún kanna hvort munur finnst á þessum þáttum milli byggða eftir því hvort fólk búi á svæðum þar sem meiri líkur eru á náttúruhamförum eða ekki. Þetta mun hún gera með því að framkvæma könnun meðal íbúa á landsvísu.

Þrír nemendur hljóta styrk fyrir lokaverkefni

Þrír nemendur Háskólaseturs Vestfjarða hlutu nýverið styrk frá Hafsjó af Hugmyndum til þess að vinna lokaverkefni sín. Hafsjór af Hugmyndum er nýsköpunarstyrkur til háskólanema á vegum Sjávarútvegsklasa Vestfjarða og er unnið í samstarfi við Vestfjarðarstofu. Styrkurinn er ætlaður háskólanemum í grunn- eða framhaldsnámi við íslenska háskóla fyrir lokaverkefni sem hafa það markmið að skapa aukin verðmæti úr sjávarauðlindum eða efla atvinnulíf á vestfjörðum.

Samspil staðartengsla og náttúruváar

Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms hjá Háskólasetri Vestfjarða og Jóhanna Gísladóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands hafa verið að rannsaka samspil staðartengsla og náttúruváar sem hluti af CliCNord verkefninu. CliCNord verkefnið fjallar um hvernig hægt sé að auka getu lítilla samfélaga á Norðurlöndunum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins er að skoða hversu undirbúin lítil samfélög eru til að takast á við slíkar áskoranir, hvaða skilning þessi samfélög hafa á sínum aðstæðum, hvernig hæfni íbúa getur hjálpað til við að byggja upp getu samfélagsins og í hvaða aðstæðum þessi samfélög þurfa aðstoð. Verkefnið gengur út frá því að náttúruvá mun hafa aukin áhrif á þessi samfélög vegna loftslagsbreytinga en það sem hefur verið skoðað í CliCNord verkefninu er til að mynda ofanflóð, stormar, flóð og gróðureldar. Alls eru 8 rannsóknir unnar í 5 löndum: Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Færeyjum og Íslandi.

Gefum íslensku séns fær Evrópumerki

Átakið “Gefum íslensku séns” hefur hlotið viðurkenninguna Evrópumerki eða European Language Label. Viðurkenningin er fyrir tungumálakennara og/eða aðra sem koma að nýsköpun og tækniþróun í tungumálakennslu. Þau eru veitt af Mennta- og barnamálaráðuneyti og Rannís fyrir nýbreytniverkefni á sviði tungumálanáms og kennslu í samstarfi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Evrópumerkinu er ætlað að beina athygli að frumlegum verkefnum í námi og kennslu erlendra tungumála og áhersla er lögð á nýbreytni og símenntun. Meira um Evrópumerkið er hægt að lesa hér.

Rannsóknir á Vestfjörðum kynntar í Vísindaporti

Á föstudaginn 10. Nóvember var Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða haldið utan veggja Háskólasetursins í fyrsta sinn. Viðburðurinn var haldinn í Blábankanum á Þingeyri þar sem fræðafólk á Vestfjörðum hélt stutta fyrirlestra um nýjustu rannsóknir sínar. Fræðafólkið tilheyrir Rannsóknarsamfélagi Vestfjarða sem er opinn hópur fólks sem stundar rannsóknir á Vestfjörðum og í nærumhverfi. Fyrirlesararnir voru meðal annars frá Háskólasetri Vestfjarða, Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða.

Árneshreppur gefur íslensku séns

Margt var um að vera í samkomuhúsinu í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum um helgina þegar átakið „Gefum Íslensku Séns – Íslenskuvænt Samfélag“ var kynnt. Að sögn Ólafs Guðsteins Kristjánssonar, umsjónarmanns íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða snýst átakið mikið um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra íslensku og hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku og að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri. Markmiðið átaksins er að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þau sem læra málið, sama hvar á vegi þeir eru staddir, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Að átakinu standa Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Ísafjarðarbær.

Könnuðu framtíð haf- og strandsvæða á Vestfjörðum

Hópur nemenda frá Háskólasetri fór á dögunum í vettvangsferð og heimsótti Ósvör, Bolafjall og Holt í Önundafirði. Hópurinn samanstóð af nemendum úr tveimur námskeiðum sem kennd eru á sitthvorum meistaranámsleiðum. Annað námskeiðið er „People and the sea: Geographical perspectives“ sem er skyldunámskeið í sjávarbyggðafræði þar sem einblínt er á að skilja tengingu fólks við hafið með hugtökum úr landafræði. Hitt námskeiðið er „Coastal and Marine Management: Theory and Tools“ sem er skyldunámskeið í Haf- og strandsvæðastjórnun þar sem nemendur læra um kenningar, stefnumótun, löggjöf og tól í haf- og strandsvæðastjórnun.

Fyrsti hópur nemenda flytur inn á stúdentagarða

Mikið fagnaðarerindi var þegar fyrsti hópur nemenda flutti inn á stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða í gær. Um er að ræða annað húsnæði af tveimur sem hefur nú verið tekið í notkun en hitt húsið er ennþá í byggingu og stefnt er að því að það verði tilbúið í haust. Formleg opnun stúdentagarða verður tilkynnt síðar.