Nemendur rannsaka sjávarspendýr á Húsavík
02.07.2024
Meistaranemar Háskólaseturs Vestfjarða hafa í mörg ár tekið þátt í vettvangsnámskeiði á Húsavík sem er haldið yfir sumartímann á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík. Námskeiðið kallast “Aðferðir við rannsóknir á sjávarspendýrum” og er hluti af Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Fram kemur á vef HÍ að 25 nemendur frá ýmsum löndum tóku þátt í námskeiðinu í ár og var stór hluti þeirra nemendur Háskólaseturs. Nemendur Háskólaseturs taka þátt í námskeiðinu sem gestanemar, en fyrir rúmlega 10 árum stofnuðu ríkisháskólar með sér kerfi sem auðveldar gestanemum töluvert að taka stök námskeið í öðrum háskólum. Háskólasetur Vestfjarða tekur þátt í þessu kerfi þar sem nemendur eru formlega innritaðir í HA. Í gegnum kerfið fær Háskólasetrið bæði til sín nemendur og sendir frá sér.