Kennarar eru jafn mismunandi og þeir eru margir – og þeir eru margir því yfir 200 kennarar hafa komið að kennslu og leiðbeiningum í meistaranámsleiðunum Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði frá upphafi.
Eitt eiga þessir einstaklingar sameiginlegt því allir eru þeir stundakennarar við Háskólasetrið. Enginn háskóli eða háskóladeild á Íslandi reiðir sig, eftir því sem best verður séð, eingöngu á stundakennara. Þessi leið gerir Háskólasetri Vestfjarða kleift að ráða til sín virta og mjög sérhæfða kennara.
Með þessu fyrirkomulagi kynnast nemendur ekki aðeins sérhæfðu fagfólki heldur einnig breiðum og fjölbreytilegum hópi einstaklinga, með ólíkt tengslanet víða um heim, sem gera námið margbrotið og lærdómsríkt.