Samspil staðartengsla og náttúruváar
20.11.2023
Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms hjá Háskólasetri Vestfjarða og Jóhanna Gísladóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands hafa verið að rannsaka samspil staðartengsla og náttúruváar sem hluti af CliCNord verkefninu. CliCNord verkefnið fjallar um hvernig hægt sé að auka getu lítilla samfélaga á Norðurlöndunum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins er að skoða hversu undirbúin lítil samfélög eru til að takast á við slíkar áskoranir, hvaða skilning þessi samfélög hafa á sínum aðstæðum, hvernig hæfni íbúa getur hjálpað til við að byggja upp getu samfélagsins og í hvaða aðstæðum þessi samfélög þurfa aðstoð. Verkefnið gengur út frá því að náttúruvá mun hafa aukin áhrif á þessi samfélög vegna loftslagsbreytinga en það sem hefur verið skoðað í CliCNord verkefninu er til að mynda ofanflóð, stormar, flóð og gróðureldar. Alls eru 8 rannsóknir unnar í 5 löndum: Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Færeyjum og Íslandi.