Árneshreppur gefur íslensku séns
16.10.2023
Margt var um að vera í samkomuhúsinu í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum um helgina þegar átakið „Gefum Íslensku Séns – Íslenskuvænt Samfélag“ var kynnt. Að sögn Ólafs Guðsteins Kristjánssonar, umsjónarmanns íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða snýst átakið mikið um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra íslensku og hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku og að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri. Markmiðið átaksins er að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þau sem læra málið, sama hvar á vegi þeir eru staddir, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Að átakinu standa Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Ísafjarðarbær.