Emma Dexter, meistaranemi hjá Háskólasetri Vestfjarða í sjávarbyggðafræði, stendur nú fyrir könnun á landsvísu sem hluti af meistaraverkefninu sínu. Könnunin mælir staðartengsl, vitund á loftslagsbreytingum og áhættuskynjun hjá fólki sem býr á Íslandi. Niðurstöðurnar munu nýtast við gerð sjálfbærar þróunaraðferða, bæði staðbundnar og á landsvísu, og varpa ljósi á hvernig skynjun einstaklinga gæti verið betur samþætt í þessar áætlanir.
Smelltu hér til að taka þátt í könnuninni (þátttakendur verða að búa á Íslandi)
Emma er 23 ára nemandi sem útskrifaðist með BA gráðu í mannfræði og umhverfisfræði frá Colgate háskólanum í Bandaríkjunum árið 2023. Strandasamfélög hafa ávallt verið stór partur af hennar lífi, þar sem hún ólst upp í suðurhluta Maine, mjög nálægt sjó. Hún er stolt af því að vera frá ríki sem hefur verið mótað af hafnarstarfsemi og hún segir að efnahagur Maine og Íslands reiði sig á margar sömu sjávartegundir. Þetta gerði það að verkum að henni fannst frekar eðlilegt að flytja til Ísafjarðar. Hún hefur þar að auki alltaf verið hrifin af norðurslóðum og man vel eftir því að hafa lært um inúíta í 7. bekk og verið mjög áhugasöm um þeirra menningu. Hún segist vera mjög þakklát fyrir það að búa svona nálægt norðurslóðum í dag. Hún segir að ein leið sem hún notaði til að tengja við íslenska menningu var að fara í sundferð hvern einasta dag í sundlaugina á Ísafirði milli 7-8.
Emma fékk innblástur fyrir rannsóknina sína frá starfi Matthiasar Kokorsch með CliCNord, sem er alþjóðlegt verkefni sem fjallar í stórum dráttum um hvernig hægt sé að auka getu lítilla samfélaga á Norðurlöndum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Matthias er fagstjóri sjávarbyggðafræði meistaranámsins hjá Háskólasetri og er leiðbeinandi Emmu. Markmiðið með rannsókninni var að bregðast við þörf á rannsóknum á þessu sviði og könnun á landsvísu um þetta rannsóknarefni er eitthvað sem hefur ekki verið gert áður.
Emma og Matthias hittust fyrst þegar Emma var í grunnnámi og heimsótti Háskólasetur með SIT prógraminu. Eftir nokkur samtöl áttuðu þau sig á því hversu lík þeirra áhugasvið voru. Þau sóttu um rannsóknarstyrk hjá Fulbright, sem þau fengu ekki, en í kjölfarið lagði Matthias til að Emma myndi sækja um meistaranám hjá Háskólasetri Vestfjarða og þróa umsóknina um rannsóknarstyrkinn áfram í efni fyrir meistaraverkefni.
Emma segir að hún hefur áður framkvæmt þónokkrar rannsóknir þar sem hún notast við einstaklingsviðtöl og taldi því könnun á landsvísu vera skemmtilega tilbreytingu. Hún segist einnig vera spennt fyrir því að læra margt þegar hún mun svo vinna í niðurstöðunum í vor. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á mannlega og menningarlega hluta loftslagsbreytinga, sem er hluti af ástæðunni af hverju hún dróst svo að rannsókn Matthiasar. Emma telur að rannsóknarmenn, fræðimenn og sérfræðingar þurfi að finna fleiri aðferðir sem hægt er að nota til að byggja upp seiglu og aðlögunarhæfni gagnvart loftslagsbreytingum. Hún telur einnig að þessar aðferðir þurfi að vera mótaðar á staðbundinn hátt og út frá menningu og þekkingu heimamanna. Hún vonast til þess að rannsóknin hennar mun hjálpa þeirri þróun.
Emma og Matthias rákust á eina hindrun í verkefninu. Þau höfðu áhyggjur af því hvernig eldgos á Reykjanesskaga myndi hafa áhrif á svör þátttakenda í könnun um áhættu og náttúruvá. Þau höfðu þetta í huga þegar þau þróuðu spurningarnar og vildu gæta fyllstu virðingar gagnvart fólkinu sem höfðu fundið mest fyrir eldgosinu, sérstaklega Grindvíkingum. Þau ákváðu að fresta könnuninni á meðan umfjöllun um eldgosið væri áberandi í fjölmiðlum. Emma og Matthias ræddu einnig snjóflóðin 1995 og 2020 í Súðavík og Flateyri og ráðfærðu sig við Jóhönnu Gísladóttir sem er meðleiðbeinandi Emmu og býr yfir þekkingu á þessum málum. Þetta samtal var mjög mikilvægt fyrir þau þar sem efni rannsóknarinnar er viðkvæmt á margan hátt.
Þegar Emma lítur til baka á árin sín hér á Ísafirði sem SIT nemi segir hún að hún elskaði að læra hér. Það hafði mikil áhrif á það að hún sótti um meistaranám hjá Háskólasetri Vestfjarða. Henni finnst Ísafjörður vera lítið samheldið samfélag og íbúar hér eru hlýlegir og örlátir. Samband heimamanna og meistaranema hjá Háskólasetri er gott að hennar mati og vera þeirra hér gagnist báðum. Út frá þeim samtölum sem hún hefur átt við suma íbúa Ísafjarðar telur hún að heimamenn kunni að meta starfskrafta nemana og að nemarnir meta gestrisni og menningu heimamanna. Að mati Emmu er gott jafnvægi milli námsins og afþreyingar á Ísafirði og stutt sé í gönguskíði, sund og fjallgöngur. “Þó svo að bærinn sé lítill, er enginn skortur á stöðum til að sinna náminu, fyrir utan Háskólasetrið sjálft er einnig kaffihús í bænum og stundum hef ég lært úti í skógi þegar veður leyfir. Það eru einnig fullt af möguleikum fyrir nemendur hér til að fræðast um sitt áhugasvið með því að sækja um styrki, taka auka námskeið og fara á gestafyrirlestra” - segir Emma.
Emma hefur ekki ákveðið hvað hún mun gera eftir útskrift þó hún búist við því að flytja aftur til Maine og vonast til þess að verja meistararitgerðina sína í september 2024. Hún veit þó að hún myndi gjarnan vilja vinna við áhættustjórnun í tengslum við náttúruhamfarir og sérstaklega þeirra sem verða til vegna loftslagsbreytinga og áhrif þeirra á sjávarbyggðir. Þetta ákvað hún á meðan hún framkvæmdi rannsóknarvinnuna sína fyrir meistararitgerðina og eftir að hafa tekið námskeið sem hluti af meistaranáminu sem kallast “Bjargráð við hamförum” kennt af Uta Reichardt. “Ég held að það yrði góð blanda af því sem ég hef lært í grunnnáminu mínu í mannfræði og umhverfisfræði og því sem ég hef lært í sjávarbyggðafræði meistaranáminu mínu. Ég vil hjálpa samfélögum að jafna sig eftir náttúruhamfarir og stuðla að staðbundinni þekkingu” - segir Emma.
Emma hefur áður fengið umfjöllun á vefsíðunni okkar þegar hún hlaut styrk frá Byggðastofnun til þess að vinna meistaraverkefnið sitt. “Styrkurinn sem við Matthias fengum hefur hjálpað gríðarlega, ég er heppin að það eru ekki mikil útgjöld sem fylgja rannsóknarvinnunni minni, könnunin er á netinu og ég hef ekki þurft að fara frá Ísafirði í frekari rannsóknarvinnu. Að hafa fengið þennan styrk gerir mér kleift að halda áfram að taka meistaranámskeið hjá Háskólasetri og sinna náminu samhliða rannsóknarvinnunni” - segir Emma.
Þegar við spurðum Emmu hvað rannsóknin hennar þýðir fyrir Ísafjörð og byggðirnar í kring sagði hún að íslendingar fylgjast vel með umhverfinu sínu á hverjum degi, en rannsóknarfólk kemur kannski í nokkrar vikur eða mánuði og fer svo. “Að taka mark á þekkingu heimamanna er mjög mikilvægt, þótt gögnum sé ekki endilega safnað á vísindalegan hátt. Fólkið þekkir samfélagið sitt best og ættu að vera einstaklingarnir sem hafa áhrif á aðlögunarverkefni. Kjarni verkefnisins er að heiðra það”. - segir Emma.
Við óskum Emmu góðs gengis með verkefnið sitt og hvetjum fólk til þess að taka þátt í könnuninni hennar.