Peter Weiss hyggst láta af störfum sem forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða

Á aðalfundi Háskólaseturs Vestfjarða s.l. föstudag, 14. mars 2025, þar sem allir stofnaðilar eru saman komnir, kynnti forstöðumaður undir öðrum málum áform um að vilja láta af störfum á yfirstandandi ári.
 
Peter Weiss hefur verið forstöðumaður frá stofnun Háskólaseturs og var þá fyrsti og til að byrja með eini starfsmaðurinn. Nú tuttugu árum síðar starfa við og fyrir Háskólasetur Vestfjarða tæplega 20 manns.
Ekki að gleyma einhverjum 80 námsmönnum.
 
Forstöðumannsskipti eru ferli sem mun dragast yfir nokkra mánuði. Ákvörðunin hafði verið kynnt stjórn í janúar og fulltrúaráði og almenningi nú í mars í tilefni aðalfundar. Til stendur að auglýsa starfið sem fyrst. Forstöðumaður er með hálfs árs uppsagnarfrest og hefur lyst yfir sveigjanleika varðandi starfslok, enda óbundinn eins og er. Hann er því ekki alveg strax farinn og mun sinna þessu starfi áfram fram yfir sumarið.
 
Fulltúar voru flest óundirbúin undir tíðindin og sum klökk við þessi þáttaskil. Þeir fóru úr sætum og þökkuðu með lófaklappi. Formaður fulltrúaráðs, Dóra Hlín Gísladóttir, þakkaði fyrir fundinn og benti á að það gæfist góður tími fram að hausti að kveðja fráfarandi forstöðumann og bauð öllum á Háskólahátíð 17. júní á Hrafnseyri.
 

Hér fyrir neðan má lesa seinni hluta ávarpsins sem forstöðumaður Háskólaseturs flutti fyrir fulltrúum ásamt tilkynningu um starfslok á yfirstandandi ári:

Fyrsti stjórnarformaður Háskólaseturs Vestfjarða, Halldór Halldórsson, sagði fyrir tuttugu árum við opnunarhátíð Háskólaseturs Vestfjarða "Nú er hátíðarstund – að nokkrum árum liðnum munum við líta til baka og segja; þetta voru gæfuspor."

Það voru líka gæfuspor fyrir mig persónulega. Ég gaf upp á bátinn fastráðningu hjá Háskóla Íslands fyrir eitthvað sem þá var skilgreint sem tilraunaverkefni til fimm ára, og ég hef aldrei séð eftir því, ekki einn einasta dag.

Það eru forréttindi að mega starfa með og fyrir stjórn sem leiðbeinir og brýtur heilann, en lætur vera að anda ofan í hálsmálið á forstöðumanni.

Það eru forréttindi að mega starfa eins og sjálfstætt starfandi.

Það eru forréttindi að starfa með öflugum kollegum sem hugsa sjálfstætt.

Það eru forréttindi að hafa allt þetta bakland hér í Vestrahúsinu.

Það eru forréttindi að kynnast öllum þeim fjöldamörgu kennurum, rannsóknarfólki og öðrum gestum sem streyma hér í gegn enda Háskólasetur orðið einhvers konar suðupottur á hjara veraldar.

Það eru forréttindi að fylgjast með öllum þeim mörgu nemendum sem þroskast við námið sitt hér á þessum stað og halda tengslum eftir á. Svo ekki sé talað um þau 11% sem eru áfram búsett á Vestfjörðum og öðrum eins fjölda sem heldur áfram að búa á Íslandi.

Það eru forréttindi að sjá allt þetta vaxa og dafna ár frá ári.

Þetta er skapandi starf, svo sannarlega. Það eru forréttindi að hafa eitthvað að segja um val á logói, litum og lýsingu, á húsgögnum, bókasafni og prentefni, á útskriftarhúfum og birkihríslum. Það eru forréttindi að vera með einhverja fallegustu skrifstofu Vestfjarða, 12 fermetrar á tveim hæðum, ,,the kvart óval office.“

Það eru forréttindi að búa í góðu samfélagi í fallegum firði, með góða nágranna.

Þetta voru gæfuspor, sannarlega. Og ég hef verið í essinu mínu í 20 ár!

Samt sem áður ætla ég að yfirgefa þetta starf á yfirstandandi ári.

Ég mun fara úr þessu áhugaverða, skemmtilega, virta, vellaunaða starfi með trega. Ég fer fullur trega úr starfi þar sem mér var treyst til að hafa vit á svo mörgu. Ég mun kveðja með trega, en ég er á sama tíma fullviss um að það er eina ráðið, það eina rétta. Leiðin til að þroskast, bæði fyrir mig sjálfan og Háskólasetrið.

Það er þetta samspil lífaldurs og starfsaldurs sem fær mig til að taka þessa ákvörðun. Hjá mér eru tíu ár í eftirlaunaaldur, jafnvel 15 ár ef eftirlaunaaldurinn breytist hjá mínum aldurshópi (sem verður væntanlega eina ráðið). Og ég sé mig ekki standa hér í þessari pontu í 10-15 ár í viðbót. Ég tel mig hafa gefið Háskólasetri það sem ég er bestur í: Trú á framtíðina, að greina möguleika, vera skýr í stefnumótun, agaður í fjárhagsmálum, koma nýrri stofnun vel af stað og vinna henni traust. Háskólasetur Vestfjarða nýtur góðs af miklum stöðugleika, mikilli festu, í stjórn og hjá starfsfólki. En það þarf líka endurnýjun. Nú er tími kominn að aðrir taki við.

Rektorar hafa sinn skipunartíma, menntamálaráðherrar þurfa að ná endurkjöri, forsetaframbjóðendur yfirbuðu hvert annað og sögðust vilja vera sem styst í embætti. En forstöðumaður Háskólaseturs þarf að hafa sjálfur vit á því hvenær tíminn er kominn hjá honum. Enn eitt sem forstöðumanni Háskólaseturs er treyst til að hafa vit á.

Ég er óendanlega þakklátur fyrir að mild örlög hafa skolað mér á einmitt þessa strönd, þar sem mér var treyst fyrir Háskólasetri Vestfjarða í heil tuttugu ár.

En nú biðst ég lausnar úr embætti.

Kærar þakkir fyrir mig.


(Ávarpið í heild sinni er hægt að lesa hér)