Starfsemi Háskólaseturs er nú aftur komin á fullt skrið eftir gott jólaleyfi og nemendur aftur mættir í skólastofunar.
Fyrsta námskeið vorannar er í hagnýtri aðferðafræði þar sem nemendur munu öðlast þekkingu, leikni og hæfni í hagnýtum aðferðum. Á námskeiðinu er farið yfir helstu aðferðir sem notaðar eru í sjávartengdum fræðum og unnið með efnivið líkt og sýnatöku, gagnasöfnun, úrvinnslu og túlkun. Styrkleikar og takmarkanir viðeigandi aðferða eru ræddir. Námskeiðið samanstendur af gestafyrirlestrum þar sem kynntar verða aðferðir sem notast er við á þessu sviði. Þar að auki verður fjallað um tengsl aðferðafræði og fræðilegra viðfangsefna. Í verklegum tímum ræða nemendur rannsóknargreinar í tengslum við sjávartengd fræði sem og aðferðir. Á námskeiðinu öðlast nemendur færni í að beita ólíkum aðferðum og verkfærum til að stýra vísindalegum og vönduðum könnunum.
Kennarar námskeiðsins eru þrír að þessu sinni.
Dr. Brack Hale er fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun. Brack er með doktorsgráðu í landauðlindum frá Háskólanum í Wisconsin-Madison og M.E.M. gráðu í vatnsauðlindum frá Duke háskóla. Áður en hann hóf störf við Háskólann í Washington var hann prófessor í líffræði og umhverfisvísindum og deildarformaður við Franklin háskóla í Sviss. Hann starfaði einnig sem bráðabirgðadeildarforseti námsmála í eina önn áður en hann kom til Háskólans í Washington. Brack hefur mikla reynslu af fræðilegri stjórnun, námskrárgerð, kennslu og gæðamati, sem og forystu og stjórnun. Hann hefur tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum við Háskólann í Washington frá árinu 2014.
Morgan Greene er fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðafræði. Hann er með meistaragráðu í orkuvísindum frá Háskólanum í Reykjavík og er doktorsnemi í viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Reykjavík. Áður en hann hóf störf hjá HV starfaði Morgan sem náms- og þróunarstjóri hjá íslenska Orkuháskólanum í Reykjavík (Iceland School of Energy).
Dr. Matthias Kokorsch er sérfræðingur í rannsóknum og verkefnastjóri og starfar sem stendur við verkefnin LostToClimate og ARCHAIC. Hann nam landfræði og félagsvísindi ásamt kennslufræði við Universität Duisburg-Essen og brautskráðist þaðan árið 2013. Árið 2018 lauk hann svo doktorsprófi í landfræði frá Háskóla Íslands.
Það er gott að fá aftur líf í húsið eftir jólaleyfi og við hlökkum til komandi annar með meistaranemunum og öllum þeim vettvangsskólum sem munu heimsækja HV á næstu vikum og mánuðum.