Meistaranemi hjá Háskólasetri Vestfjarða hlýtur styrk til að þróa klifurleiðarvísi fyrir Vestfirði

Mynd eftir Björgvin Hilmarsson
Mynd eftir Björgvin Hilmarsson

Brendan Kirby, meistaranemi við Háskólasetur Vestfjarða í sjávarbyggðafræði fékk 400.000 kr. styrk frá uppbyggingarsjóði Vestfjarða til að þróa klifurleiðarvísi fyrir Vestfirði. Brendan er upprunalega frá Bandaríkjunum en hefur ferðast og búið í fjölmörgum löndum eins og Írlandi, Suður-Kóreu, Nýja-Sjálandi og Spáni áður en hann kom til Íslands. Hann kom fyrst til Vestfjarða árið 2022 þegar hann hjólaði um Ísland og á leið sinni um Vestfjarðaleiðina heillaðist hann af stórbrotna landslaginu á Vestfjörðum. Hann vissi þó ekki að tveimur árum seinna myndi hann kalla þennan stað heimilið sitt á meðan hann stundar nám hjá Háskólasetri.

Brendan heyrði fyrst um Háskólasetur Vestfjarða frá öðrum nemenda og ákvað að kynna sér það betur. “Ég var áhugasamur um meistaranámið í sjávarbyggðafræði og ákvað að elta þetta einstaka tækifæri. Ég var ánægður að fá inngöngu í námið. Ísafjörður er frábrugðin öllum þeim stöðum sem ég hef búið á áður. Fyrir einhvern utanaðkomandi aðila gæti lífið hér virst hægt, en sem íbúi hér eftir 4 mánuði get ég sagt að ég er alveg ósammála. Samfélagið, umhverfið og náttúran bjóða upp á endalaus ævintýri fyrir þau sem leita þeirra” - segir Brendan.

Mynd: Björgvin Hilmarsson

Frumkvæði að klifurleiðarvísi

Brendan er mikill áhugamaður um klifur og tók fljótt eftir því að það var skortur á upplýsingum um útiklifur, og þá sérstaklega um klettaklifur í kringum Ísafjörð og Vestfirði. Eftir að hafa komist í tengsl við klifursamfélagið á svæðinu í gegnum Klifurfélag Vestfjarða komst hann að því að það hafa ákveðnar klifurleiðir verið kortlagðar, en að það væri þörf á frekari upplýsingum. Hann byrjaði því í september að skrásetja klifurleiðir fyrir klettaklifur í göngufæri frá Ísafirði. „Með hjálp annarra höfum við opnað nýtt aðgengilegt útivistarsvæði í göngufæri frá bænum,“ segir Brendan.

Til að geta þróað þetta verkefni frekar, sótti Brendan um styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Nú í desember hlaut hann styrk til að búa til staðbundinn klifurleiðarvísi. Þessi leiðarvísir mun skrásetja klifursvæði á Ísafirði og kringum Vestfirði með það að markmiði að gera útivistarmöguleika aðgengilegri fyrir samfélagið og ferðamenn. Leiðarvísirinn verður væntanlegur næsta sumar.

Mynd: Björgvin Hilmarsson

Háskólasetur Vestfjarða styður Brendan heilshugar í þessu verkefni og hlakkar til að sjá jákvæð áhrif þess á samfélagið og útivist á Vestfjörðum. Háskólasetur vill einnig óska tveimur fyrrum nemendum sínum til hamingju með styrkveitingar úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða: Tyler Wacker og Rozálie Rasovská. Tyler Wacker útskrifaðist úr meistaranámi í sjávarbyggðafræði árið 2022. Hann hlaut 750.000 kr. styrk fyrir markaðssetningu og þróun á vefsíðu fyrir hjólabúðina sína „The Fjord Hub,“ sem er staðsett á Ísafirði. Rozálie Rasovská útskrifaðist á þessu ári úr sömu námsleið. Hún fékk 500.000 kr. styrk til að kynna ayurvedic heilsufræði á Vestfjörðum.

Það er afar hvetjandi að sjá þau jákvæðu áhrif sem núverandi og útskrifaðir nemendur Háskólaseturs Vestfjarða hafa á Vestfirði, við óskum þeim góðs gengis með verkefnin sín.