Háskólasetur Vestfjarða fagnaði 20 árum á föstudaginn með opnu húsi í Vestrahúsi. Fleiri stofnanir í húsinu tóku þátt í fögnuðinum og var dagskráin fjölbreytt og aðsóknin fram úr vonum. Hjá Háskólasetri hófst dagskráin á aðalfundi sem hefur venjulega verið haldinn í maí ár hvert, en var í tilefni afmælisársins haldinn nær stofndegi Háskólaseturs og samtvinnaður við opið hús.
Á aðalfundi fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf og kosin var stjórn. Marta Lilja M. Olsen fer úr stjórn og er orðin formaður jafnréttisstofu og Harpa Grímsdóttir lætur af störfum sem stjórnarformaður. Í stað þeirra koma í stjórn Dr. Thomas Barry, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólanna og Halla Signý Kristjánsdóttir, tilnefnd af Ísafjarðarbæ. Stjórnin lagði til að stjórnarlaunin yrðu áfram þau sömu og voru frá stofnun Háskólaseturs, eða 0,0 kr. Fulltrúaráð samþykkti þessi stjórnarlaun.
Í tilefni afmælisársins var 20 ára skýrsla Háskólaseturs gefin út með breyttu sniði. Gefið var út afmælisrit sem segir sögu Háskólaseturs frá 2005-2025 á myndrænan og skemmtilegan hátt. Í ritinu eru m.a. teikning af Vestrahúsi eftir Ómar Smára Kristinsson listamann og vatnslitamyndir og fleira frá Nínu Ivanovu listakonu. Áhugasamir geta sótt sér eintak í Háskólasetri eða skoðað rafrænt eintak hér.
Eftir aðalfundinn tóku nokkrir til máls og ávörpuðu gesti opna hússins. Meðal þeirra voru Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðar og fyrrverandi stjórnarformaður Háskólaseturs, Harpa Grímsdóttir fráfarandi stjórnarformaður Háskólaseturs og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðar. Astrid Fehling, kennslustjóri Háskólaseturs ávarpaði gesti og tilkynnti þeim að Háskólasetri Vestfjarða hefði verið gefin afar vegleg gjöf sem mun auka gæði kennslu og fjarfunda. Peter Weiss forstöðumaður tók við gjöfinni fyrir hönd Háskólaseturs en gjöfin er frá Þorsteini Jóhannessyni og konu hans Margréti Hreinsdóttur og verður hægt að lesa umfjöllun um tækjabúnaðinn á vefsíðunni okkar, enda efni í sér frétt. Eftir ávörpin var boðið upp á 20 metra langa afmælisköku og skáru Halldór Halldórsson og Harpa Grímsdóttir fyrstu sneiðarnar hvor frá sínum endanum.
Einni kennslustofu var breytt í „bíósal“, þar var boðið upp á popp frá Ísafjarðarbíói og sýnd myndbönd um núverandi og útskrifaða meistaranema Háskólaseturs. Í annarri kennslustofu voru sýndar rannsóknir nemenda og hægt var að skoða plasteindir í fiski í smásjá. Kvennakór Ísafjarðar söng síðan lög fyrir gesti og að lokum héldu 4 meistaranemar kynningar um stúdentalífið á Ísafirði.
Aðrar stofnanir í húsinu voru einnig með dagskrá og má þar nefna Fræðslumiðstöð Vestfjarða með kynningu á Gefum íslensku séns verkefninu frá Höllu Signýju og 15 mínútna örjóga með Írisi Ösp. Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands var með til sýnis snjókornamyndavélar og snjóflóðalíkön og hélt kynningu á mikilvægum öryggisbúnaði. Hjá Vestfjarðastofu var spjallborð sem hét “Frá verstöð til aflstöðvar þekkingar - hver eru næstu skref?” og fjallaði um næstu skref í uppbyggingu menntunar á Vestfjörðum nú þegar Háskólasetur hefur verið starfrækt í 20 ár. Þátttakendur í spjallborðinu voru Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells og formaður Sóknarhóps Vestfjarðastofu, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Dóróthea Einarsdóttir, aðstoðarskólameistari Menntaskólans á Ísafirði. Stjórnandi spjallborðs var Gylfi Ólafsson, stjórnarformaður Vestfjarðastofu.
Við þökkum öllum sem komu á opið hús og fögnuðu þessum stóra áfanga með okkur. Hér fyrir neðan má sjá myndir frá deginum.