Christoph Pfülb meistaranemi fær styrk til að kanna sjálfboðaliðastarf og áhættustýringu á Íslandi

Christoph Pfülb meistaranemi
Christoph Pfülb meistaranemi

Það er ánægjulegt að segja frá því að Christoph Pfülb, meistaranemi á öðru ári í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða hefur hlotið rannsóknarstyrk frá Byggðastofnun fyrir lokaverkefnið sitt „Sjálfboðaliðastarf og áhættustýring á Íslandi: Rannsókn á hlutverki staðartengsla og staðbundinnar þátttöku í björgunarsveitum og hjálparstarfi“.

Christoph mun vinna með leiðbeinendum sínum, Dr. Jóhönnu Gísladóttur og Dr. Matthias Kokorsch, sem hafa mikla reynslu á þessu sviði í gegnum CliCNord-verkefnið. Christoph segir að hann fékk innblástur fyrir rannsókninni í gegnum tvö námskeið sem hann tók hjá Háskólasetri sem hluti af meistaranáminu. Námskeiðin voru Fólkið og hafið: Landfræðilegt sjónarmið sem er kennt af Dr. Kokorsch og Bjargráð við hamförum sem er kennt af Dr. Uta Reichardt. Christoph hefur lengi haft áhuga á mannúðarstarfi og áhættustýringu vegna náttúruváar enda hefur hann lengi verið félagi í þýsku björgunarsamtökunum DLRG.

Rannsóknin byggir á könnun á landsvísu eftir Emmu Dexter, meistaranema við Háskólasetur sem hún framkvæmdi á árunum 2023/2024. Könnunin fjallaði um staðartengsl, vitund um loftslagsbreytingar og áhættuskynjun. Verkefni Christophs miðar að því að greina hvata til þátttöku í björgunarsveitum og hjálparstarfi, kanna áhrif staðartengsla á staðbundna þátttöku og þróa leiðir til að efla viðbúnað og viðbragðsáætlanir á landsvísu gegn hamförum.

„Ísland stendur frammi fyrir ólíkum tegundum af náttúruvá og er sérstaklega viðkvæmt fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, sem geta aukið hættu á hamförum,“ segir Christoph. „Viðbrögð við neyðartilvikum byggja að miklu leyti á staðbundnu sjálfboðaliðastarfi, einkum í dreifbýli.“

Styrkurinn frá Byggðastofnun mun standa straum af kostnaði við rannsóknina, svo sem hugbúnaði fyrir gagnaúrvinnslu og ferðakostnaði vegna viðtala við sérfræðinga. „Þótt verkefnið krefjist ekki mikilla fjárfestinga veitir styrkurinn mér svigrúm til að einbeita mér algjörlega að ritgerðinni og nýta niðurstöðurnar sem best,“ bætti Christoph við. Hann mun síðan ræða niðurstöður sínar við lykilaðila í íslenskum viðbragðs- og neyðarstjórnunar teymum eftir að gagnaúrvinnslu lýkur.

Frá árinu 2015 hefur Byggðastofnun veitt styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðaþróunar. Við mat á umsóknum er fyrst og fremst litið til tengsla við byggðaþróun, nýnæmi verkefnis og hvort til staðar séu möguleikar á hagnýtingu þess. Þessi styrkur hefur reynst mikilvægur fyrir meistaranema við Háskólasetur Vestfjarða þar sem fimm nemar hafa hlotið styrki síðustu fimm ár.

Um Christoph Pfülb
Christoph er frá Hannover í Þýskalandi og lauk BA-gráðu í félags- og menningarmannfræði og mannvistarlandfræði við Georg-August-háskólann í Göttingen. Lokaverkefni hans í grunnnáminu fjallaði um strandveiðar við Gíneuflóa, sem vakti áhuga hans á strand- og byggðaþróun.

Varðandi meistaranámið í Sjávarbyggðafræði segir Christoph að það er mikil áhersla á fjölbreytt námsframboð og frelsi til að sníða nám sitt að áhuga sínum. "Alþjóðleg og þverfagleg nálgun námsins, ásamt vettvangsferðum og hagnýtri reynslu, veitir mikilvæga innsýn í samfélags- og byggðaþróun á Íslandi."

Hann hefur notið þess að búa á Ísafirði og segir: „Þetta er lítil og notalegur bær með fjölbreytta afþreyingu, til dæmis tónleika, barsvar, gönguferðir, brimbretti og snjóbretti. Samfélagið er vingjarnlegt, og sundlaugarferðirnar eru ekki bara afslappandi heldur líka frábær leið til að tengjast fólki en Christoph nýtur þess að sitja í pottinum með kaffibolla að spjalla við bæjarbúa.

Við óskum Christoph innilega til hamingju með styrkinn og hlökkum til að fylgjast með framvindu rannsóknarinnar.


Christoph á brimbretti