Brianna Marie Cunliffe, meistaranemi á fyrsta ári í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða hefur hlotið 350.000 kr. rannsóknarstyrk frá Byggðastofnun fyrir lokaverkefnið sitt sem heitir “Orkuáætlun með þátttöku almennings til að byggja upp seiglu á Vestfjörðum”
Rannsókn hennar snýst um að þróa byggðamiðaðar lausnir varðandi seiglu í orkumálum. Hún segir að þátttaka almennings sé mikilvæg í þessu samhengi og getur hún leitt til áhrifaríkra og framsýnna lausna og komið í veg fyrir kostnaðarsamar tafir eða árekstra. Markmið rannsóknarinnar er að tengja saman gildi, forgangsröðun og þekkingu hagsmunaaðila á Vestfjörðum með aðferðum sem byggja á þátttöku þeirra. Með því að þróa stefnumótandi framtíðarsýn sem almenningur tekur þátt í mun Brianna kanna kosti þess að færa umræðu og ákvarðanatöku í orkumálum nær samfélaginu.
Brianna vill vinna náið með heimamönnum og mun skipuleggja vinnustofur með hagsmunaaðilum. Í þeim verða kannaðar mismunandi leiðir í orkumálum og fjallað um helstu áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir. Hún leggur áherslu á að vinna verkefnið á Vestfjörðum: „Þessi styrkur skiptir mig miklu máli þar sem hann gefur mér betri möguleika á að einbeita mér að verkefninu. Hann gerir mér kleift að skapa hlýlegt og opið umhverfi fyrir þátttakendur, draga úr hindrunum fyrir þátttöku og að ég get unnið þetta verkefni á Vestfjörðum.” - segir Brianna. Hún nefnir einnig að það að vera á staðnum í persónu er grundvallaratriði til að byggja upp traust og öðlast heildrænan skilning og að það opni líka dyr að frekari tengslum við starfsemi Byggðastofnunar og samstarfsaðila hennar víða um svæðið. Það stuðli í kjölfarið að því að verkefnið nýtist samfélaginu enn betur. “Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með Byggðastofnun strax á fyrstu stigum rannsóknarinnar, svo hægt sé að tryggja að verkefnið mætir þörfum samfélagsins.“ - bætir Brianna við.
Ástríða fyrir samráðsverkefnum og samfélagslegri seiglu
Brianna útskrifaðist úr umhverfisfræði og stjórnmálafræði frá Bowdoin háskólanum árið 2022. Áhugi hennar á samfélagsmiðaðri rannsóknarvinnu kviknaði í grunnnáminu þegar hún vann að lokaverkefninu sínu um aðgerðar- og samfélagsmiðaðar rannsóknir. Áður en hún hóf meistaranám hjá Háskólasetri Vestfjarða starfaði hún sem verkefnastjóri samfélagslegrar seiglu og þátttöku hjá samtökum sem heita “Climate to Thrive” í gegnum “Island Institute Fellows” verkefnið. Þar hafði hún umsjón með samstarfi sveitarfélaga um loftslagsstefnu og sá um að afla fjármögnunar fyrir staðbundin verkefni. Hún hefur einnig starfað hjá “Clean Air Task Force” og “Dogwood Alliance” í Bandaríkjunum þar sem hún öðlaðist dýrmæta reynslu af þjóðgörðum, réttlæti í umhverfismálum og samfélagsmótun. Í dag er hún meðformaður í ráðgjafaráði “Next Generation for Appalachian Trail Conservancy” þar sem hún vinnur að réttlæti í stefnu um loftslagsmál.
Nánd og einstakt landslag í Vestfjörðum
Þegar Brianna lítur til baka á reynslu sína eftir eina önn í meistaranámi hjá Háskólasetri Vestfjarða lýsir hún ánægju sinni með þverfaglega nálgun skólans: „Ég valdi þetta nám vegna þess að ég vildi nálgast flókin viðfangsefni á hagnýtan og verklegan hátt og öðlast betri skilning á samtvinnuðum kerfum í einstöku landslagi” - segir Brianna. Hún segir að samheldni í samfélaginu hafi farið fram úr væntingum hennar og bætir við að námið hér hafi verið allt sem hún vonaðist eftir- og meira til. Við óskum henni til hamingju með styrkinn og hlökkum til að fylgjast með verkefninu hennar.