Lengd námskeiðs: 1 vika
Klukkustundir: 35-40
Kennt á: vorönn (kringum páska og aldrei fór ég suður)
Námsefni: innifalið
Áherslur: hlustun, lestur, samræður, talmál, skriftir. Kennsla fer fram á íslensku
Háskólasetur Vestfjarða býður upp á vikulangt framhaldsnámskeið á stigi B2 yfir vetrartímann. Námskeiðið er hannað til að mæta þörfum nemenda sem eru lengra komnir í íslenskunámi og vilja bæta við færni sína. Námskeiðið fer fram á Ísafirði og er staðsetning námskeiðsins notuð á fjölbreyttan hátt í kennslunni. Námskeiðið er haldið í kringum páskavikuna og tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Það er því kjörið tækifæri að slá tvær flugur í einu höggi og læra íslensku á einni skemmtilegustu viku ársins á Ísafirði.
Námskeiðið tekur mið af evrópska tungamálarammanum og verður leitast við að æfa alla fimm þætti hans á gagnvirkan hátt (hlustun, lestur, samræður, talmál, skriftir). Námskeiðið fer allt fram á íslensku. Því er nauðsynlegt að þátttakendur hafi góðan skilning á íslensku og geti haldið uppi skilvirkum samræðum. Þeir þurfa til dæmis að skilja að mestu leyti það sem er í fréttum og geta lesið sér til gagns og gamans.
Lögð er áhersla á orðaforða með lestri valdra texta: blaðagreinar; brot úr skáldsögum; pistla og ljóð. Eins og í öðrum námskeiðum Háskólaseturs verður einnig lögð áhersla á efni sem tengist Vestfjörðum og Ísafirði, meðal annars menningu, sögu og náttúru svæðisins. Kennslan verður í fyrirlestraformi og samræðum í tímum en einnig verður farið í heimsóknir á valda staði á Ísafirði og nágrenni, hlustað á kynningar og talað um viðfangsefni kynninganna.
Nemendur setja saman texta um heimsóknir og upplifun sína með aðstoð kennara. Eftir kennslu hvers dags fá nemendur heimaverkefni sem kennarinn fer yfir og aðstoðar nemendur með það sem betur má fara. Á námskeiðinu horfa nemendur á valdar íslenskar kvikmyndir með íslenskum texta ásamt kennara.
Ekki er lögð áhersla á málfræði en þó verður eitthvað farið í málfræðiatriði sem hæfa þessu stigi.
Önnur íslenskunámskeið
Háskólasetur Vestfjarða býður upp á þónokkur önnur íslenskunámskeið. Íslenskunámskeiðin notast við Evrópska tungumálarammann og eru á erfiðleikastigi frá A1 (byrjendur) til B2 (framhaldsnemar). Andrúmsloft námskeiðanna er vingjarnlegt og leggjum við okkur fram við að blanda saman mismunandi þáttum í kennslunni til þess að kenna og æfa sem mest á fjölbreyttan hátt. Öll námskeiðin eiga það sameiginlegt að reyna að nota samfélagið að einhverju leyti sem hluta af kennslunni, sem eins konar framlengingu af kennslustofunni.