Frá 2021 til 2024 var Háskólasetur Vestfjarða hluti af alþjóðlega rannsóknarverkefninu CliCNord. Verkefnið fjallar um það hvernig hægt sé að auka getu lítilla samfélaga á Norðurlöndunum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga.
Matthias Kokorsch, fagstjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða var verkefnastjóri íslenska CliCNord hópsins. Með fjármagninu sem verkefnið fékk gat Matthias ráðið þrjá meistaranema í Sjávarbyggðafræði sem aðstoðarmenn við rannsóknina. Allir þrír meistaranemarnir unnu að meistararitgerðum sínum í tengslum við CliCNord. Eitt meistaraverkefnið var nýlega varið á seinasta varnatímabili en hin tvö hafa verið birt sem fræðigreinar í ritrýndum tímaritum.
Eitt þeirra er meistararitgerð Frances Simmons, sem var birt í tímaritinu “Land”, sem er, alþjóðlegt og þverfræðilegt, ritrýnt tímarit. Greinin ber titilinn „Stafrænar gönguferðir sem verkfæri til að meta staðartengsl og samfélagsviðbrögð við umhverfisbreytingum“. Í rannsókn sinni skoðaði Frances staðartengsl íbúa á Patreksfirði á tímum heimsfaraldurs og snjóflóðahættu. Þetta gerði hún með nýstárlegri aðferð, með svokallaðri stafrænni gönguferð
Að skilja hvernig samfélagið tengist umhverfi sínu er nauðsynlegt fyrir gott svæðisskipulag og áhættustjórnun í samræmi við þarfir heimamanna. Rannsókn Frances leitast við að mæla þessi tengsl og undirstrikar mikilvægi þess að fá innsýn frá samfélaginu. Frances stóð frammi fyrir ýmsum áskorunum við skipulagningu rannsóknarvinnu sinnar, til að mynda hindraði COVID-19 faraldurinn hana við að hitta fólk í eigin persónu og snjóflóðahætta gerði ferðalög erfið. Til að vinna bug á þessum hindrunum bjó hún til „stafrænar gönguferðir“ sem staðgengil fyrir hefðbundnar rannsóknaraðferðir, og nýtti sér verkfæri eins og myndsímtöl og íslensk þrívíddarkort. Hlekkinn á rannsóknargrein Frances má finna hér: https://www.mdpi.com/journal/land
Þetta verkefni hlaut styrk frá Norrænu rannsóknaráætluninni um samfélagslegt öryggi (Nordic Societal Security Programme) samkvæmt samningi nr. 97229 og frá Byggðastofnun.