Popp, kók og vísindi!

Háskólasetur tók þátt í vísindaviðburði á Patreksfirði í nóvember, sem kallaðist "Popp, kók og vísindi." Þar kom saman fræðafólk úr Rannsóknarsamfélagi Vestfjarða, en það samanstendur af rannsakendum og vísindamönnum víðsvegar af Vestfjörðum. Hópurinn blés til sýningar í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði þar sem gestir gátu horft á stuttar vísindakynningar og gætt sér á poppi og gosi í leiðinni.
 
Eftir kynningarnar var haldið stutt og skemmtilegt skyndipróf meðal áhorfenda og sigur úr býtum hafði Gígja nokkur, til hamingju með það!
 
Næsta dag heimsótti hópurinn tvo skóla á svæðinu til að ræða við börnin um vísindi og rannsóknir. Rannsóknarsamfélagið þakkar Vestfjarðastofu fyrir aðstoð við skipulagningu og Orkubúi Vestfjarða fyrir að styrkja verkefnið með framlagi úr samfélagssjóði sínum.