Hjördís Þráinsdóttir hóf störf hjá Háskólasetri Vestfjarða sem verkefnastjóri í 50% stöðugildi þann 1. nóvember síðastliðinn. Hjördís hefur búið á Ísafirði í 25 ár en er frá Súðavík. Hún er gift og á 3 stráka og hefur starfað lengst af fyrir Ísafjarðarbæ sem skjalastjóri síðan 2008.Hún er með BA í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri og leggur í dag stund á meistaranám í menntunarfræði M.Ed. auk diplómu í sérkennslufræðum frá sama skóla.
Hjördís hefur verið áberandi í tónlistarlífinu á Ísafirði. Hún er með framhaldspróf í einsöng frá Tónlistarskóla Ísafjarðar, er í kirkjukórnum, kvennakórnum og tveimur hljómsveitum; Rokkhundunum sem halda árlega rokktónleika á skírdag og Fagranesi sem spilar á böllum fyrir djammþyrsta, auk þess sem hún syngur í hinum ýmsu athöfnum.
Breytingar urðu á starfi verkefnastjóra Háskólaseturs þegar Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir fyrrum verkefnastjóri lauk störfum í sumar. Hún tók við stöðu skólastjóra hjá Tónlistarskóla Ísafjarðar og Háskólasetur þakkar Bjarney fyrir vel unnin störf. Stöðugildi verkefnastjóra hjá Háskólasetri var hækkað úr 50% í 100% og eru nú tveir verkefnastjórar hjá Háskólasetri, Hjördís og Ester Sturludóttir, hvor um sig í 50%. Helstu verkefni Hjördísar sem verkefnastjóri er að sinna hlutverki persónuverndarfulltrúa, umsjón með prófum fyrir fjarnemendur, skjalavarsla, umsjón með bókasafni Háskólaseturs og fleira.
Ester Sturludóttir var áður móttökuritari hjá Háskólasetri en hóf störf sem verkefnastjóri í september. Hennar helstu verkefni sem verkefnastjóri Háskólaseturs eru umsjón með hinu vikulega Vísindaporti, skipulagning á ráðstefnum og viðburðum, umsjón með þróunarsjóði innflytjendamála og fleira. Þar að auki er Ester skrifstofustjóri Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða í 25% stöðugildi. Aðrar breytingar innan Háskólaseturs eru þær að Gunna Sigga, áður móttökuritari, er nú þjónustustjóri Háskólaseturs. Í kjölfarið viljum við benda á að breytingar hafa orðið á opnunartíma móttöku. Móttaka er nú mönnuð alla virka daga milli 08:30-13:30.