Nýnemar Háskólaseturs Vestfjarða fóru í afar skemmtilega ferð í Vigur seinustu helgi. Árlega nýnemaferðin hefur þann tilgang að hrista saman hópinn og kynnast svæðinu í kringum Ísafjörð. Nemendahópurinn samanstóð af meistaranemum Háskólaseturs Vestfjarða í námsleiðunum tveimur: Haf- og Strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði. Einnig voru nemendur í meistaranámi í “Climate Change and Global Sustainability” viðstaddir en þeir dvelja hjá Háskólasetri í eina önn í gegnum bandaríska SIT háskólann í Vermont.
Hópurinn fékk frábærar móttökur í Vigur frá Gísla og Felicity sem eiga eyjuna og búa í henni allt árið. Gísli tók á móti nemendunum úr bátnum og gekk með hópnum í leiðsöguferð um eyjuna. Hann sagði þeim frá einu vindmyllu Íslands sem er staðsett á eyjunni og gömlum bátum og húsum. Komið var við í rúmgóðum skúr þar sem vinnsla á æðardún fer fram og nemendur fengu fræðslu um ferlið og tækin sem eru notuð. Eftir það gekk Gísli með hópnum þvert yfir eyjuna og til að raska umhverfinu sem minnst gengu allir í halarófu á eftir honum og hann sagði þeim skemmtilegar og fróðlegar sögur um lífið í Vigur í gegnum tíðina.
Eftir hressilega gönguferð var komið við í Fjósinu þar sem Felicity bauð upp á gómsæta hjónabandssælu og kaffi. Nemendurnir voru ánægðir með veitingarnar og nýttu tímann í að kynnast hvort öðru betur. Felicity sagði þeim frá allskonar mælingum sem hafa verið gerðar í eyjunni og hvatti áhugasama nemendur til að framkvæma rannsókn í Vigur, hvort sem það væri hluti af meistaraverkefni eða öðru rannsóknarverkefni. Eftir hressinguna sendu nokkrir nemendur póstkort úr minnsta pósthúsi í Evrópu á meðan aðrir skoðuðu sýninguna í Viktoríuhúsi. Síðan var förinni heitið aftur í bátinn frá Sjóferðum sem flutti hópinn til Ísafjarðar.
Við þökkum Gísla og Felicity fyrir skemmtilega og fræðandi leiðsögn og gómsætar veitingar í Vigur. Við þökkum einnig Sjóferðum fyrir ánægjulega bátsferð.
Hér fyrir neðan má sjá myndir úr ferðinni: