Nýnemadagar 2024

Í dag og á morgun fara fram nýnemadagar hjá Háskólasetri Vestfjarða þar sem tekið er á móti meistaranemum og nýtt skólaár sett. Nemendahópurinn sem var viðstaddur í dag samanstendur af meistaranemum Háskólaseturs Vestfjarða í námsleiðunum tveimur: Haf- og Strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði. Einnig voru nemendur í meistaranámi í “Climate Change and Global Sustainability” viðstaddir en þeir dvelja hjá Háskólasetri í eina önn í gegnum bandaríska SIT háskólann í Vermont.

Peter Weiss forstöðumaður bauð nemendur velkomna í morgun og sagði þeim frá sögu Háskólaseturs. Astrid Fehling kennslustjóri fór yfir praktísk atriði og síðan fengu nemendurnir að kynnast hvoru öðru í formi leikja, sem Brack Hale fagstjóri stýrði. Leikirnir fóru að þessu sinni fram inni sökum veðurs en þeir ganga út á það að hjálpa nemendum og starfsfólki að kynnast betur. Til að mynda eiga nemendur og starfsfólk í einum leik að mynda kort með því að raða sér niður á lönd en í öðrum áttu þau að raða sér í eina línu eftir afmælisdag án þess að tala saman. Þessir leikir voru gerðir til að sýna hinn mikla fjölbreytileika nemenda og kennara, sem háskólasetrið fagnar og sameinar einstaklinga með mismunandi bakgrunn í leit að þekkingu.

   

Í hádeginu galdraði hin eina sanna Gunna Sigga fram gómsæta súpu fyrir hópinn, en á boðstólum var einnig heimaræktað salat frá Peter Weiss. Nemendurnir fengu einnig kynningu um bygginguna og kynntust hinum ýmsu stofnunum sem eru í Vestrahúsi.

Eftir hádegishlé fengu nýnemarnir kynningu frá núverandi meistaranemum Háskólaseturs þar sem þeir fengu mikilvægar upplýsingar um nemendalífið á Ísafirði. Haldið verður áfram með nýnemadaga á morgun þar sem nemendur fá frekari kynningu á náminu frá fagstjórunum Brack og Matthias.