Nemendahópur frá Háskólasetri Vestfjarða er lagður af stað áleiðis til Lettlands og Litháens þar sem hann tekur þátt í Nordplus námskeiði um fólksfækkun í smærri byggðum. Námskeiðið er tveggja vikna, alþjóðlegt námskeið sem veitir 5 ECST einingar, þar sem þróun byggðar við Eystrasaltið verður rannsökuð.
Hópurinn lagði af stað áleiðis í morgun, ásamt Matthias Kokorsch sem er fagstjóri Sjávarbyggðafræðinnar og Arnari Sigurðssyni, kennara hjá Háskólasetrinu. Námskeiðið hefst á morgun, 29. apríl, og er haldið í samstarfi við háskóla í Finnlandi, Svíþjóð, Lettlandi og Litháen en meginbúðir námskeiðsins verða í Vilnius, Litháen, og Riga, Lettlandi.
Í hópnum eru meistaranemar í Sjávarbyggðafræði og munu þau hitta sérfræðinga og hagsmunaðila bæði úr atvinnulífinu og stjórnsýslunni á þessum strjálbýlli svæðum, til að kynna sér þróunina og aðferðir til að aðlagast henni.
Þá munu þau fara í skoðunarferðir og taka þátt í hópavinnu með öðrum þátttakendum á námskeiðinu og vinna sínar eigin rannsóknir, ekki síst með áherslu á aðferðafræði í byggðaþróun sem á ensku kallast "smart shrinking" en mætti útleggjast á íslensku sem "snjallfækkun", en það er nálgun þar sem sæst er á íbúafækkun svæðis en áhersla lögð á að mynda smærri kjarna með betri lífsgæðum.
Spennandi verður að heyra og sjá hvers nemendurnir verða vísari á námskeiðinu en hægt verður að fylgjast með hópnum næstu tvær vikurnar á Instagram (@uwiceland) og Facebook síðum Háskólaseturs Vestfjarða.