Hringborð Norðurslóða eða The Arctic Circle Assembly var stærsti viðburður októbermánaðar að venju en það er ýmislegt á döfinni nú í nóvember. Helst ber að nefna að opnað verður fyrir umsóknir fyrir næsta skólaár svo endilega hnippið í þau sem þið þekkið og hafa áhuga á framhaldsnámi í strandsvæða- og smábyggðafræðum, á einu fegursta svæði Íslands!
Við erum rúmlega hálfnuð með haustönnina, nemendur eru einbeittir og uppteknir við námið en hafa auðvitað tíma til að njóta verunnar hér á Vestfjörðum líka. Eflaust bíða mörg með eftirvæntingu eftir því að snjórinn komi til að hægt verði að draga fram skíði, bretti og snjósleða. En þangað til skulum við rifja upp þessa frábæru ráðstefnu sem fram fór í Reykjavík í fögru en köldu veðri.