Þá eru íslenskunámskeiðin komin á fullt eins og vanalega í ágúst. Í gær hófst þriggja vikna byrjendanámskeið sem 19 nemendur sækja. Inn í íslenskunámskeiðin fléttast auðvitað viðburðir Gefum íslensku séns og rétt að minna á markmið þess átaks, að gefa þeim sem eru að læra íslensku séns á að nota málið eins og hentar þeirra getu hverju sinni, sýna þolinmæði, einfalda og endurtaka og ætlast ekki til of mikils. Og síðast en ekki síst, gefa íslenskunni séns en skipta ekki strax yfir í ensku eða annað tungumál.
Af þessu tilefni hafa verið búin til barmmerki sem nemendur bera, ef þau vilja, og geta bent á til að gefa til kynna að þau vilji spreyta sig á íslensku, t.d. þegar þau panta sér veitingar á kaffi- og veitingahúsum bæjarins eða þurfa að eiga önnur samskipti við málhafa. Við biðjum íbúa Ísafjarðarbæjar því um að hafa augun opin og taka tillit til þessara nemenda.
Þann 7. ágúst hefst svo vikunámskeið fyrir lengra komin, 14. ágúst hefst hraðnámskeið fyrir byrjendur, sem varir eina viku og loks hefst tveggja vikna námskeið 21. ágúst fyrir þau sem eru frekar langt komin í íslenskunámi. Allt í allt gerir þetta 60 nemendur sem verða hér úti í samfélaginu í ágúst og þiggja stuðning málhafa við að tileinka sér námsefnið.