Háskólasetur Vestfjarða hluti af “Green Meets Blue” verkefninu

Háskólasetur Vestfjarða er hluti af verkefninu „Green Meets Blue“, sem er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (MR-FJLS). Verkefnið verður undir forystu Nordregio og eru Háskólasetur Vestfjarða og Háskóli Hálanda og eyja í Skotlandi (University of Highlands and Islands – UHI) samstarfsaðilar í verkefninu. Matthias Kokorsch, fagstjóri hjá Háskólasetri er verkefnisstjóri fyrir íslenska hluta verkefnisins. Aðstoðarmenn eru Rebecca og Tabea, sem báðar eru meistaranemar við Háskólasetur, ásamt Maria Wilke sem er fyrrverandi meistaranemi og kennari við Háskólasetur Vestfjarða og skrifaði doktorsverkefni um hafskipulag.

Um verkefnið:
Norrænu löndin hafa sett sér metnaðarfull markmið um loftslags- og orkumál, þar sem endurnýjanleg orka á hafi úti gegnir lykilhlutverki í grænu umskiptunum. Græni sáttmáli Evrópusambandsins leggur áherslu á að lágmarka umhverfisspjöll, og stefna ESB um líffræðilega fjölbreytni fyrir 2030 setur háleit markmið um verndun hafsvæða. Norræn hafsvæði eru einnig mikilvæg fyrir fæðuframboð. Endurnýjanleg orka á hafi úti er gríðarlega mikilvæg, en henni fylgja einnig áskoranir, þar með talið skörun við aðrar atvinnugreinar eins og sjávarútveg og fiskeldi. Skipulagning hafsvæða er lykilatriði til að stjórna þessum árekstrum og stuðla að sjálfbærni.

Norræna ráðherranefndin hefur sett af stað nokkur verkefni til að takast á við vandamálin sem fylgja hinu sjálfbæra haf-hagkerfi og áskoranir tengdar skörun atvinnugreina. Verkefnið „Green Meets Blue“, sem er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (MR-FJLS) mun standa yfir í tvö ár (2024-2025). Það mun miða að því að leggja sitt af mörkum til að byggja upp sameiginlega þekkingargrunn norrænu landanna, með því að auka skilning á sjálfbærri samtvinningu endurnýjanlegrar orku (með áherslu á vindorku á hafi) og fæðuframleiðslu á hafi (með áherslu á sjávarútveg og fiskeldi). Háskólasetur Vestfjarða mun frá rúmar 1.300.000 kr af heildar styrkupphæð.