Málþing á vegum átaksins Gefum íslensku séns fór fram í gær í Háskólasetri, með áframhaldandi vinnustofu fyrir hádegi í dag. Mörg fróðleg erindi voru flutt á málþinginu, sem bar yfirskriftina Hvernig getur samfélag hjálpað til við máltileinkun?
og er augljóst að mikill metnaður er víða fyrir því að íslenskunám útlendinga komi þeim almennilega að notum og opni samfélagið betur fyrir þeim.
Umsjónarmaður íslenskunámskeiða Háskólaseturs, Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, var fundarstjóri á málþinginu sem einnig var streymt á netinu. Fyrstur talaði Gísli Hvanndal Ólafsson, verkefnisstjóri í íslensku fyrir útlendinga hjá Háskóla Íslands. Hann fór stuttlega yfir reynslu sína af því að kenna íslensku sem annað mál og skort á samræmingu á málstefnu opinberra aðila þegar kemur að íslenskukunnáttu innflytjenda. Í máli hans kom m.a. fram að fari íslenskunámskeið fram á öðru tungumáli en íslensku, sem hann telur draga stórlega úr tileinkun námsefnisins og þannig sé hvatning til að læra tungumálið mjög lítil.
Næst talaði Ana Belén Fernández Organista, sem kennir við námskeið í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands. Hún lýsti reynslu sinni af að læra sjálf nokkur tungumál, þar á meðal íslensku, og gerði samanburð á uppbyggingu og innleggi tungumálakennslu eftir málunum, sem leiddi í ljós að innlegg í íslenskunámi fyrir innflytjendur er nokkuð minna en í öðrum Evrópumálum.
Þá kynntu þær Martina Cernotová og Kristín Björk Gunnarsdóttir frá SÍMEY á Akureyri starf þeirra og nálgun á hlutverk móðurmáls nemenda í kennslu íslensku sem annars máls. Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir kynnti Íslenskuþorpið, stuðningsvænt námsumhverfi á leið íslenskunema til virkrar þátttöku í samfélaginu, og Joanna Majewska lýsti upplifun sinni af því að læra íslensku.
Næst var kynnt nýtt smáforrit, Bara tala, sem stafræn viðbótarlausn í íslenskukennslu en höfundar þess eru Guðmundur Auðunsson og Hervé Debono en þeir sýndu og leyfðu gestum að prófa forritið sem lofar góðu.
Að lokum hélt sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, Bragi Þór Thoroddssen, stutt hvatningarávarp og frumsýnd var stikla úr myndböndum sem þau Margeir Haraldsson Arndal og Anna Sigríður Ólafsdóttir eru að vinna fyrir átakið Gefum íslensku séns, þar sem þau ræða við innflytjendur á Vestfjörðum um íslenskunám og -tileinkun þeirra.
Bæði málþingið í gær og vinnustofan í morgun voru einstaklega fróðleg og hvetjandi til að gæta betur að því að opna greiðari leið fyrir innflytjendur inn í íslenskt samfélag.