Frá Nýfundnalandi til Ísafjarðar: Sjálfbærni í fiskveiðum

Háskólasetur Vestfjarða tók nýlega á móti einstökum hópi leiðtoga og rannsakenda frá Nýfundnalandi. Heimsóknin er styrkt af “Global Arctic Leadership” verkefninu frá Háskóla norðurslóða (UArctic) og Harris setrinu í Memorial-háskólanum, þróunarsjóðnum “Indigenous and Northern Relationships” og “Marine Biomass Innovation” verkefninu, sem er fjármagnað af “New Frontiers in Research” styrknum.

Hópurinn samanstóð af Mi’kmaw höfðingjum frá Three Rivers Mi'kmaq Band og Benoit's Cove Indian Band (Elmastukwek First Nation) í Vestur-Ktaqmkuk (Nýfundnalandi), ásamt rannsakendum frá SEED Waterloo og Grenfell Campus. Tilgangur heimsóknarinnar var að miðla þekkingu og kanna nýjungar í sjálfbærni í sjávarútvegi með sérstakri áherslu á nýsköpun í nýtingu aukaafurða úr fiskvinnslu.

Þessi heimsókn er hluti af stærra verkefni sem miðar að því að þróa sjálfbærar nýsköpunaraðferðir fyrir fiskveiðar í Vestur-Ktaqmkuk. Samstarfið undirstrikar hversu mikilvæg þekkingarskipti eru og hve mikilvægt er að styrkja tengsl eins og þessi til að auka sjálfbærni.

     

Á meðan dvöl þeirra stóð hitti hópurinn meistaranema í sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða. Meistaranemarnir fengu innsýn í það hvernig verkefni hópsins er leitt af Mi’kmaw hugtakinu “Etuaptmumk” sem merkir “tvö augu sjá”. Hugtakið leggur áherslu á að læra að sjá heiminn frá tveimur sjónarhornum: frá hinu vestræna sjónarmiði og styrkleikum þess, og frá sjónarmiði frumbyggja og styrkleikum þess. Með því að taka mið af þessum tveimur sjónarmiðum saman notar fólk “bæði augu saman”. Þessi heildræna nálgun sameinar tvö sjónarmið og veitir nýja sýn á flóknar áskoranir.

Háskólasetur Vestfjarða sendir innilegar þakkir til allra fyrirtækja og stofnana á Vestfjörðum sem tóku á móti hópnum. Þetta framtak er gott dæmi um möguleika á samstarfi milli ólíkra þekkingarkerfa til að ná fram sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins.

 

Takk fyrir okkur:
Kerecis  (Ísafjörður)   -   Kampi  (Ísafjörður)   -   Ísafjarðabær   -   Byggðasafn Vestfjarða  (Ísafjörður)   -   Hampiðjan  (Ísafjörður)   -   Íslandssaga  (Suðureyri)   -   Klofningur  (Suðureyri)   -   Vestfjarðastofa  (Ísafjörður)   -   Blámi  (Bolungarvík)   -   Fiskbúð Sjávarfangs  (Ísafjörður)   -   Fine Foods Íslandica  (Hólmavík)