Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er nýr verkefnastjóri Háskólaseturs Vestfjarða. Bjarney er fædd og uppalin á Ísafirði og kannast eflaust margir við hana úr tónlistarlífinu. Hún stundaði tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá unga aldri og lauk síðar framhaldsnámi í söngkennslufræðum við Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn. Hún er einnig með lokapróf í kórstjórn frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og hefur starfað sem tónlistarkennari í um 30 ár, lengst af við Tónlistarskóla Ísafjarðar.
„Ég er spennt að takast á við nýjar áskoranir sem verkefnastjóri Háskólaseturs en verkefnastjórnun hefur auðvitað fylgt manni sem kennara, maður er stöðugt að búa til ný verkefni“ – segir Bjarney Ingibjörg.
Bjarney Ingibjörg útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík nú í vor með meistaragráðu í verkefnastjórnun, MPM. Hún hefur einnig verið verkefnastjóri tónlistarhátíðarinnar „Við Djúpið“ sem var endurvakin fyrir tveimur árum.
„Þegar maður er búinn að vera mjög lengi að vinna við það sama, þá er svo gott að ögra sjálfum sér og fara út fyrir þægindarammann. Það var tilgangurinn minn með náminu en ég vildi samt tengja það við það sem ég hef verið að gera. Það er svo hollt fyrir mann að takast á við nýjar áskoranir, það heldur hausnum gangandi“ – segir Bjarney Ingibjörg
Bjarney elskar útivist og sund og hefur mjög gaman af prjónaskap. Hún kann einnig mikið að meta góðan kaffibolla.