Margt var um að vera í samkomuhúsinu í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum um helgina þegar átakið „Gefum Íslensku Séns – Íslenskuvænt Samfélag“ var kynnt. Að sögn Ólafs Guðsteins Kristjánssonar, umsjónarmanns íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða snýst átakið mikið um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra íslensku og hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku og að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri. Markmiðið átaksins er að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þau sem læra málið, sama hvar á vegi þeir eru staddir, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Að átakinu standa Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Ísafjarðarbær.
Kynningin var frá 13:00-15:30 en byrjað var á því að kynna Háskólasetur Vestfjarða. Síðan var átakið „Gefum Íslensku Séns“ kynnt þar sem sýnd voru myndbönd, barmmerkjum var dreift og bolir með áletruninni „Ég tala íslensku“ voru seldir. Þar á eftir var Hagnýt íslenska við Háskóla Íslands kynnt, en Háskólasetur Vestfjarða er þar samstarfsaðili HÍ. Þar að auki var BA-nám í íslensku sem annað mál einnig kynnt lítillega.
Sædís María Jónatansdóttir, aðili á vegum „Gefum Íslensku Séns“ og Fræðslumiðstöð Vestfjarða, kynnti starfsemi Fræðslumiðstöðvar og ræddi sérstaklega fjarkennslu með áherslu á íslenskukennslu. Mæting í félagsheimilið var góð og mikill áhugi var á því sem kynnt var. Viðburðurinn mun vonandi leiða af sér tengilið á þessu svæði sem mun hjálpa til við að skipuleggja viðburði „Gefum Íslensku Séns“.