Takk fyrir árin tuttugu! - Ávarp forstöðumanns á aðalfundi 2025

Fyrsti stjórnarformaður Háskólaseturs Vestfjarða, Halldór Halldórsson, sagði fyrir tuttugu árum við opnunarhátíð Háskólaseturs Vestfjarða "Nú er hátíðarstund – að nokkrum árum liðnum munum við líta til baka og segja; þetta voru gæfuspor."

Og þetta voru svo sannarlega gæfuspor!

Það er mikil gæfa að ekki skyldi staðar numið við það sem við þekktum, heldur hugsað út fyrir rammann. Það var reyndar nauðsynlegt að hugsa út fyrir rammann. Háskólasetur Vestfjarða er á svo margan hátt öðruvísi en þekkist meðal háskóla á Íslandi og þar er ekki nein sérviska sem veldur, heldur kalla staðsetningin og lýðfræðilegar forsendur á sérúthugsaðar lausnir.

Háskólasetrið var stofnað í mars 2005 af heimamönnum, og mætti kannski kalla það grasrótarstofnun. Og einmitt þess vegna hefur Háskólasetrið alla tíð verið mjög vestfirsk stofnun.

Háskólasetur á sér langa og sterka hefð fyrir sumarnámskeiðum og vettvangsskólum, enda krafan um staðbundið nám á háskólastigi skýr og ótvíræð strax í upphafi og voru sumarnámskeiðin allra fyrstu skrefin í átt að staðbundinni kennslu á háskólastigi, strax 2006. Mikil kennslustarfsemi yfir sumartímann hefur fylgt Háskólasetri æ síðan og er sumarið með annasamari tímum, á meðan margir háskólar landsins skella í lás.

En hvað um staðbundið nám á háskólastigi? Meistaranámið fór af stað 2008. Háskólasetrið býður eingöngu upp á nám á meistarastigi, enda þarf það nám sem í boði er á Vestfjörðum alltaf að laða að nemendur utan svæðis, sem er auðveldara á meistarastigi en á bakkalárstigi. Það er ekki nein sérviska, heldur nauðsyn.

Öfugt við flesta háskóla í landinu hefur Háskólasetur ekki viljað kenna í fjarnámi, enda markmiðið að fá nemendur – og kennara – á staðinn til að efla Vestfirði og vestfirskt samfélag. Úr verður allt annað námsumhverfi, þar sem það að læra saman, af hverju öðru og í návígi við kennara, fær meira vægi en gengur og gerist í fjarnámi. Það er væntanlega þess vegna sem nemendur sækja hingað. Áhersla er lögð á tengingu náms við nærumhverfið og þjálfun færni og leikni.

Og svo við höldum okkur við sérviskuna: Háskólasetrið kennir allt í tveggja eða þriggja vikna lotum til að geta boðið nemendum upp á framúrskarandi kennara sem eru sérfræðingar á sínu sviði.

Háskólasetrið er eina stofnunin sem starfar á háskólastigi sem býður upp á nám sem er eingöngu kennt af stundakennurum. Í slíku kerfi eru störf fagstjóra námsleiðanna ómissandi og ekkert hliðstætt því sem er í háskólum með sínum fastráðna kennaraskara.

Háskólasetrið kennir þriggja anna kerfi til að gera nemendum kleift að klára allar kennslueiningar á einu ári og ná að einbeita sér að lokaverkefnum á öðru ári. Kennslunni lýkur ekki fyrr en í lok júní og virðist það vera einsdæmi á Íslandi. Markmiðið er að nemendur, sem flestir munu ávallt vera aðkomunemar, geti dvalið hvar sem er í heiminum á öðru ári meistaranámsins.

Háskólasetur Vestfjarða er ekki háskóli, eins og nafnið gefur til kynna, en starfar að öllu leyti eins og það væri háskóli. Það á sér heldur ekki hliðstæðu í háskólakerfinu. Það tryggir alþjóðlega viðurkenningu náms í gegnum samning um fullgildingu við Háskólann á Akureyri.

Háskólasetrið er ekki fjármagnað eins og háskólarnir og er byggðaaðgerð í sjálfu sér. Þetta gegnsýrir vissulega alla starfsemina.

Og kannski mikilvægast af öllu: Stofnunin er öðruvísi og hugsar öðruvísi vegna þess að hún er ekki með 80% nýstúdenta í túnfætinum hjá sér, milli Hvítár og Hvítár, henni er og var alltaf ætlað að draga fólk vestur, í staðbundið nám á háskólastigi.

Stofnun sem þessi er á svo margan hátt frábrugðin háskólastofnunum á Íslandi. Það er nauðsynlegt að hún sé öðruvísi. Hún má ekki láta setja sig í einhverja skúffu, bara ef einhver fyrir sunnan eða erlendis hefði fundið út að þetta eða hitt sé nú í tísku. Háskólastofnun á Vestfjörðum er það mikil mótsögn í sjálfu sér að slík stofnun þarf að móta sinn eigin ramma, þó það sé í trássi við tískustrauma hverju sinni. Hún má vera nýstárleg eða gamaldags allt eftir því hvað henni hentar. Hún þarf að taka mið af landfræðilegri staðsetningu sinni og lýðfræðilegum forsendum, og eru fáar stofnanir í sömu sporum hvað það varðar. Uppskriftin er ekki til, hún þarf að skrifast á staðnum hverju sinni.

Það eru forréttindi að mega vinna við þessa uppskrift og þróa hana áfram í stöðugri endurskoðun.

"Nú er hátíðarstund – að nokkrum árum liðnum munum við líta til baka og segja; þetta var gæfuspor."

Og það voru gæfuspor!

Það voru líka gæfuspor fyrir mig persónulega. Ég gaf upp á bátinn fastráðningu hjá Háskóla Íslands fyrir eitthvað sem þá var skilgreint sem tilraunaverkefni til fimm ára, og ég hef aldrei séð eftir því, ekki einn einasta dag.

Það eru forréttindi að mega starfa með og fyrir stjórn sem leiðbeinir og brýtur heilann, en lætur vera að anda ofan í hálsmálið á forstöðumanni.

Það eru forréttindi að mega starfa eins og sjálfstætt starfandi.

Það eru forréttindi að starfa með öflugum kollegum sem hugsa sjálfstætt.

Það eru forréttindi að hafa allt þetta bakland hér í Vestrahúsinu.

Það eru forréttindi að kynnast öllum þeim fjöldamörgu kennurum, rannsóknarfólki og öðrum gestum sem streyma hér í gegn enda Háskólasetur orðið einhvers konar suðupottur á hjara veraldar.

Það eru forréttindi að fylgjast með öllum þeim mörgu nemendum sem þroskast við námið sitt hér á þessum stað og halda tengslum eftir á. Svo ekki sé talað um þau 11% sem eru áfram búsett á Vestfjörðum og öðrum eins fjölda sem heldur áfram að búa á Íslandi.

Það eru forréttindi að sjá allt þetta vaxa og dafna ár frá ári.

Þetta er skapandi starf, svo sannarlega. Það eru forréttindi að hafa eitthvað að segja um val á logói, litum og lýsingu, á húsgögnum, bókasafni og prentefni, á útskriftarhúfum og birkihríslum. Það eru forréttindi að vera með einhverja fallegustu skrifstofu Vestfjarða, 12 fermetrar á tveim hæðum, ,,the kvart óval office.“

Það eru forréttindi að búa í góðu samfélagi í fallegum firði, með góða nágranna.

Þetta voru gæfuspor, sannarlega. Og ég hef verið í essinu mínu í 20 ár!

Samt sem áður ætla ég að yfirgefa þetta starf á yfirstandandi ári.

Ég mun fara úr þessu áhugaverða, skemmtilega, virta, vellaunaða starfi með trega. Ég fer fullur trega úr starfi þar sem mér var treyst til að hafa vit á svo mörgu. Ég mun kveðja með trega, en ég er á sama tíma fullviss um að það er eina ráðið, það eina rétta. Leiðin til að þroskast, bæði fyrir mig sjálfan og Háskólasetrið.

Það er þetta samspil lífaldurs og starfsaldurs sem fær mig til að taka þessa ákvörðun. Hjá mér eru tíu ár í eftirlaunaaldur, jafnvel 15 ár ef eftirlaunaaldurinn breytist hjá mínum aldurshópi (sem verður væntanlega eina ráðið). Og ég sé mig ekki standa hér í þessari pontu í 10-15 ár í viðbót. Ég tel mig hafa gefið Háskólasetri það sem ég er bestur í: Trú á framtíðina, að greina möguleika, vera skýr í stefnumótun, agaður í fjárhagsmálum, koma nýrri stofnun vel af stað og vinna henni traust. Háskólasetur Vestfjarða nýtur góðs af miklum stöðugleika, mikilli festu, í stjórn og hjá starfsfólki. En það þarf líka endurnýjun. Nú er tími kominn að aðrir taki við.

Rektorar hafa sinn skipunartíma, menntamálaráðherrar þurfa að ná endurkjöri, forsetaframbjóðendur yfirbuðu hvert annað og sögðust vilja vera sem styst í embætti. En forstöðumaður Háskólaseturs þarf að hafa sjálfur vit á því hvenær tíminn er kominn hjá honum. Enn eitt sem forstöðumanni Háskólaseturs er treyst til að hafa vit á.

Ég er óendanlega þakklátur fyrir að mild örlög hafa skolað mér á einmitt þessa strönd, þar sem mér var treyst fyrir Háskólasetri Vestfjarða í heil tuttugu ár.

En nú biðst ég lausnar úr embætti.

Kærar þakkir fyrir mig.