Smávinir fagrir – leiðtogafærni íslenskra kórstjóra
Líta íslenskir kórstjórar á sig sem leiðtoga? og hvað felst í því að vera leiðtogi?
Erindið er unnið upp úr lokaverkefni sem Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir gerði í meistaranámi sínu í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík. Í því voru gerðar tvær rannsóknir þar sem tekin voru viðtöl við þrjá kórstjóra annarsvegar og svo send út spurningakönnun til kórstjóra hinsvegar. Þar var m.a. spurt hvort íslenskir kórstjórar líti á sig sem leiðtoga og hvort það sé mikilvægt að þeir tileinka sér leiðtogafærni.
Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Hún hóf ung tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar og er menntaður söngkennari og kórstjóri. Hún flutti aftur heim á Ísafjörð árið 2006 þar sem hún hefur starfað sem tónlistarkennari, lengst af við Tónlistarskóla Ísafjarðar . Vorið 2023 útskrifaðist hún frá Háskólanum í Reykjavík með MPM gráðu í verkefnastjórnun og starfar nú hjá Háskólasetri Vestfjarða sem verkefnastjóri. Bjarney Ingibjörg starfar einnig sem kórstjóri við Ísafjarðarkirkju og verkefnastjóri tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið.
Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér:https://eu01web.zoom.us/j/69947471079