Vísindaport: Viltu kynnast TVÍK, hinum tæknivædda íslenskukennara?

TVÍK (tvik.is), eða hinn tæknivæddi íslenskukennari, er stafrænt íslenskunámskeið sem tekur nemandann í gegnum gagnvirk og raunveruleg samtöl og er öllum mögulegum tækjum og tólum búið til þess að aðstoða hann til að auka færni í samræðum og ýta undir sjálfsöryggi í samskiptum í gegnum eftirminnilegar sögur.

Stafræni heimurinn TVÍK býður íslenskunemanum í ævintýralegt ferðalag um ókunnuga staði með einstökum sögupersónum og hollum skammti af dramatík og spennu. TVÍK hermir eftir raunverulegu samfélagi, séð og matreitt frá sjónarhóli sérvits vélmennis. Nemandinn er kynntur fyrir hinu hráa, mannlega og flókna Íslandi, hliðum landsins og tungumálsins sem sjaldan fá þá athygli sem þær eiga skilið; ekki eingöngu álfa, fjöll og lopapeysur, heldur nútímamenningu sem endurspeglast í daglegum samskiptum, sambandi okkar við tækni, bröndurunum okkar, pólítískri óreiðu og fjölbreytileika.

Verkefnið vann Gulleggið snemma árs 2022 og hefur verið í virki þróun síðan, og er nú á lokametrunum með að klárast. Gamithra, stofnandi TVÍK fer með okkur yfir sögu verkefnisins, kynnir okkur fyrir TVÍK og vinum hans, og að sjálfsögðu verður hægt að prófa hugbúnaðinn á leiðinni. 

Gamithra (gamithra.com) er upprunalega frá Eistlandi en flutti 17 ára til Íslands út af brennandi áhuga á íslenskri menningu og lærði íslensku á sveitabæ í Aðaldal. Hún byrjaði að forrita á unglingsárunum og áður en hún ákvað að einbeita sér að laga aðgengisvanda að íslenskukennslu vann hún meðal annars sem hakkari og netöryggissérfræðingur hjá Syndis og rannsakaði myndun stafrænna félagslegra tengsla hjá CCP. Hún er einnig meðstofnandi Samtaka um mannvæna tækni þar sem hún brennur fyrir því að finna skalanlegar lausnir við samskiptavandamálum nútímans og finna leiðir til að ýta tækni í átt að mannvænni framtíð.

 

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á íslensku