Vísindaport: Hjólandi ferðaþjónusta

Í Vísindaporti nk.föstudag mun Halldóra Björk Norðdahl halda erindi um reiðhjólaferðamenn og þá þjónustu sem Cycling Westfjords hefur byggt upp í kringum þá.

Af hverju velja þeir að ferðast á reiðhjóli, af hverju Vestfirði, hvaðan kemur Cycling Westfjords og hvert er það að fara?

Halldóra Björk Norðdahl er Ísfirðingur í húð og hár. Hún hefur meira og minna starfað sjálfstætt alla tíð. Fyrst sem dagmóðir í fjölda ára, svo með saumastofuna Dórukot og nú verslunina Klæðakot í miðbæ Ísafjarðar.

Hún nam Ferðamálafræði við Háskólann á Hólum 2015-2020 þar sem hún útskrifaðist með BA í ferðamálum. Lokaverkefnið hennar var rannsókn á upplifun reiðhjólaferðamanna af Vestfjörðum.

Að loknu námi stofnaði hún ásamt vel völdum félögum ferðaþjónustuna Cycling Westfjords.

Tyler Wacker mun vera henni til stuðnings, en hann er einn þeirra sem stofnaði Cycling Westfjords með henni. Hann kom til Ísafjarðar frá Texas til að stunda nám hér við Háskólasetur Vestfjarða þar sem hann útskrifaðist með meistaragráðu í Sjávarbyggðafræðum. Hann fékk styrk frá Rannís til að hjóla Vestfjarðarleiðina og skrifa skýrslu um upplifun sína af því og stöðu innviða fyrir reiðhjólaferðamenn á leiðinni.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá kl. 12.10 til 13.00

Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna slóðina hér:

https://eu01web.zoom.us/j/6994747