Fyrsta Vísindaport vetrarins verður nk. föstudaginn 29. september. Valdimar J. Halldórsson, mannfræðingur, mun segja frá hugmyndum sem fram komu á alþjóðlegri ráðstefnu rannsóknarfólks um félags- og samvinnustarfssemi fyrir hagkerfi og samfélög, er haldið var dagana 11. – 14. september síðastliðinn í Frankfurt í Þýskalandi og nefndist: „9th INTERNATIONAL CONFERENCE ON SOCIAL ENTERPRISE. ACT LOCALLY CHANGE GLOBALLY. Social Enterprises and cooperatives for more resilient economies and societies“.
Nú um stundir er mikið talað um loftslagsbreytingar af mannavöldum og þeirri hættu sem stafar af þeim fyrir jarðarbúa. Ljóst er að mikilla breytinga er þörf í umgengni okkar við náttúruna. Hinsvegar er lítið talað um hvað eigi að koma í staðinn fyrir núverandi kerfi eða hvernig við eigum að leysa þetta félagslega.
Valdimar J. Halldórsson er mannfræðingur að mennt og lauk magisterprófi í mannfræði við Árósarháskóla í Danmörku árið 1992. Hann gerði vettvangsrannsókn sína á Suður-Indlandi en starfaði síðan sem mannfræðingur í Danmörku, Malawí og Zimbabwe í Afríku, auk Bangladesh í Suður-Asíu. Eftir heimkomuna til Íslands árið 2003 kenndi Valdimar í fjóra vetur í MÍ, en gerðist síðan staðarhaldari á Hrafnseyri þar til hann hætti nú í ársbyrjun vegna aldurs.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð og stendur yfir frá kl. 12.10 til 13.00.