Sundlaugamenning á Íslandi til UNESCO

Sundlaugamenning á Íslandi til UNESCO
 
Sagt frá skráningu sundlaugamenningar á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir og undirbúningi að tilnefningu sundlaugamenningar á Íslandi til UNESCO, á yfirlitsskrá yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns.
Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skráningu á sundlaugamenningu á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir.
Vefurinn Lifandi hefðir er yfirlitsskrá á Íslandi yfir óáþreifanlegan menningararf vegna aðildar að samingi UNESCO frá 2003 um varðveislu menningarerfða. Vefnum er ætlað að vera vettvangur samfélaga og hópa til að miðla lifandi hefðum sem það hefur þekkingu á.
 
Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnastýra vefsins Lifandi hefðir hjá Stofnun Árna Magnússonar mun í erindi sínu segja frá skráningu sundlaugamenningar inná vefinn og lýsa þeim undirbúningi sem nú er í gangi varðandi tilnefningu sundlaugamenningarinnar til UNESCO. Unnendum sundsins og öðrum áhugasömum verður einnig boðið að taka þátt í umræðum yfir kaffibolla að lokinni kynningunni og ræða sína eigin sýn á sundlaugamenningu Íslendinga.