Laust starf - Fagstjóri meistaranáms: Sjávarbyggðafræði

Háskólasetur Vestfjarða (HV) leitar að kraftmiklum einstaklingi í krefjandi starf fagstjóra á sviði sjávarbyggðafræði. Hjá HV eru kenndar tvær hliðstæðar alþjóðlegar, þverfaglegar námsleiðir á meistarastigi, Sjávarbyggðafræði (Coastal Communities and Regional Development) annars vegar og Haf- og strandsvæðastjórnun (Coastal and Marine Management) hins vegar. Innritaðir nemendur eru upp undir 80 samtals. Báðar námsleiðirnar eru í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Fagstjóri vinnur í litlu en framsæknu háskóla- og rannsóknarumhverfi á Ísafirði og hefur rík tækifæri til að sýna frumkvæði með það að markmiði að skapa framúrskarandi náms- og vinnuumhverfi fyrir alþjóðlegan nemendahóp. Fagstjóri skipuleggur kennslu, viðheldur tengslum við samstarfsaðila námsins og forleiðbeinir nemendum í meistaraprófsritgerðum. Starfið krefst mikillar skipulagshæfni, faglegra vinnubragða og vilja til að veita frábæra þjónustu. Starfið krefst sérlega mikillar samstarfshæfni enda eiga námsleiðirnar tvær að ganga í takt. Fagstjórinn þarf að fylgjast vel með lokaritgerðarvinnu nemenda í náinni samvinnu við leiðbeinendur og þarf til þess að hafa góða faglega yfirsýn sem og þekkingu á helstu rannsóknaraðferðum í mannvistarlandfræði, félagsvísindum og/eða hagfræði. Æskilegt er að fagstjóri hafi reynslu af að leiðbeina nemendum á meistarastigi. Til greina kemur að fagstjórinn taki að sér einhverja kennslu. Að þessum verkefnum uppfylltum er mjög velkomið að fagstjóri sinni rannsóknum.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Þverfræðileg menntun og/eða rannsóknarreynsla á viðeigandi sviði
  • Reynsla af að skipuleggja kennslu á háskólastigi
  • Meistarapróf eða doktorspróf
  • Þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum
  • Skipulagshæfni
  • Frumkvæði og sveigjanleiki í starfi
  • Reynsla af rannsóknarvinnu og leiðbeiningu lokaritgerða æskileg
  • Góð enskukunnátta í ræðu og riti. Kunnátta í íslensku æskileg

Við mat á umsóknum er tekið mið af því hversu vel viðkomandi uppfyllir þarfir HV með hliðsjón af því að námsleiðirnar tvær þróist saman og efli hvora aðra. HV áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Staðan er auglýst tímabundið til fjögurra ára með framlengingarmöguleika vegna þess að núverandi fagstjóri hefur hlotið rannsóknarstyrk. Nýr fagstjóri ætti að geta hafið störf á haustmisseri 2025. Upplýsingar veitir Peter Weiss, forstöðumaður, í síma 450 3045 eða weiss@uw.is

Umsóknir (kynningarbréf og ferilskrá ásamt ritaskrá, skrá yfir kennslureynslu og önnur akademisk störf, ef við á) sendist í tölvupósti á weiss@uw.is. Umsóknarfrestur er til og með 15.05.2025.