Þegar tilkynnt var í byrjun desember hver hlytu styrki frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða mátti sjá nokkur nöfn á blaði sem tengjast Háskólasetri Vestfjarða. Það sýnir sem er að bæði núverandi og fyrrverandi nemendur, sem og starfsfólk, Háskólasetursins eru hugmyndarík og áfjáð um að gefa af sér til samfélagsins á Vestfjörðum eftir að hafa numið og starfað hér.
Í ár hlutu tvö verkefni frjá nemendum styrk, The Arctic Fish Midnight Special hjólreiðakeppnin hlaut 700.000 kr. og Frá Landinu, handverksmunir fyrir heimilið, hlaut 600,000 kr. Að auki fékk Catherine Chambers styrk til að setja upp ljósmyndasýninguna SeaGirls og Ingibjörg Rósa Björnsdóttir fékk styrk fyrir viðskiptaáætlun um Laupinn - hús hrafnanna, en þær starfa báðar hjá Háskólasetri.
Frá Landinu er verkefni þriggja námsmanna við Háskólasetur en Ainara Aguilar er konan á bak við styrkinn svo við báðum hana að segja okkur nánar frá verkefninu.
Hvað geturðu sagt okkur um sjálfa þig?
Ég heiti Ainara Aguilar og er sjávarlíffræðingur frá Spáni en var búsett í Chile áður en ég flutti til Vestfjarða í ágúst síðastliðnum. Ég er í meistarnámi í Sjávarbyggðafræðum en ætla að taka námið í rólegheitum og útskrifast 2024.
Hvað er Frá Landinu og hvernig kom hugmyndin til?
Í grunninn er hugmyndin fengin að láni frá Chile, að inniskóm og teppum úr sauðskinni og gærum sem falla til við sauðfjárbúskap. Ég fékk þessa hugmynd á síðasta ári þegar ég sá hversu stór sauðfjárbúskapur er á Íslandi en samt takmarkað framboð af vörum úr sauðskinni, sem og þá íslensku venju að vera skólaus heima hjá sér. Sem nýbúi á Íslandi vissi ég ekki hvernig eða hvert ég ætti að leita til að koma þessari hugmynd í framkvæmd en eftir að hafa búið hér um tíma komst ég að tilvist Uppbyggingarsjóðs. Þótt að hugmyndin sé mín erum við samt þrjár sem standa að verkefninu, ég, Emily Péjic og Holly Solloway sem eru á öðru ári í meistarnámi við Háskólasetur en, öfugt við mig, eru í Haf- og strandsvæðastjórnun. Ég er svo ánægð og þakklát fyrir að þær brenni jafn mikið fyrir þessari klikkuðu hugmynd og ég, þeirra stuðning frá upphafi og að við séum að láta þetta verða að veruleika. Mig langar líka að nefna og þakka þeim sem hafa hjálpað okkur hér á Vestfjörðum, Freymari og Freyju frá Eysteinseyri við Tálknafjörð, Hjalta frá Stað í Súgandafirði, Grétari, Dani og öllum sem gert okkur ferlið mögulegt og auðveldara. Þetta er mjög fallegt samfélag hérna og við erum mjög ánægðar með að vera hluti af því.
Hvaða þýðingu hefur styrkurinn fyrir verkefnið?
Við vorum þegar byrjaðar að vinna að því og ætluðum að þróa það hvort eð er. En að fá þennan styrk skiptir þó miklu fyrir okkur og framtíð vöruhugmyndarinnar. Þetta þýðir að við getum þróað ennþá betri viðskiptaáætlun því við getum ráðið sérfræðinga til að aðstoða okkur frá upphafi við að stofna farsælt fyrirtæki.