Háskólasetur Vestfjarða óskar eftir þátttöku sem allra flestra Vestfirðinga í spurningakönnun vegna rannsóknarverkefnis um aðlögun fólks að svæðunum sem það býr á.
Verkefnið er samstarfsverkefni Háskólaseturs og Háskóla Vestur Bretaníuskaga,
Université de Bretagne Occidentale (UBO) og kom til að frumkvæði Elisabeth Guillou, prófessors í félags- og umhverfistengdri sálfræði. Einnig kemur
Université Laval í Quebec, Kanada, að úrvinnslu rannsóknarinnar. Verkefnið er styrkt af Fondation de France, miðstöð rannsóknarsjóða í Frakklandi.
Samstarfsverkefnið kallast "Appropriation de l’espace maritime et littoral, représentation sociale de la mer et construction identitaire : Comprendre la perception des risques et l’adaptation aux enjeux des territoires" sem útleggja mætti á íslensku sem "Samsömun á haf- og strandsvæðum, félagsleg áhrif nærveru hafsins og tilurð sjálfmyndar: Greining á því hvernig fólk skynjar hættur og aðlagast staðbundnum umhverfisþáttum."
Í stuttu máli snýst rannsóknin um að skoða og skilja hvernig samsömun íbúa við svæðið sem þeir búa á hefur áhrif á sjálfsmynd þeirra og hvernig sjálfsmyndin hefur áhrif á hvaða augum þeir líta, og umgangast, hættur á sínu landsvæði.
Ekki er eingöngu átt við náttúruhamfarir í þessu samhengi heldur einnig félagslegar breytingar/raskanir sem fólk kann að upplifa sem afleiðingu af náttúrulegum þáttum (t.d. samfélagslegar breytingar, áhrif á atvinnumál o.fl.).
Undanfari spurningakönnuninnar nú fór fram á síðasta ári, þegar 25 einstaklingar af öllum svæðum Vestfjarða voru beðnir um að draga upp mynd af sínu nánasta umhverfi samkvæmt ákveðinni aðferð. En nú er óskað eftir þátttöku ALLRA sem búa á Vestfjörðum, til að niðurstöður rannsóknarverkefnisins verði sem skýrastar.
Hér má finna spurningakönnunina en það tekur um 8-10 mínútur að svara henni.