Sagan öll – eða það óumflýjanlega óvísindalega í akademískri starfsemi.
Háskólasetur Vestfjarða á stórafmæli í ár. Á þeim tuttugu árum hefur margt gerst sem skrifað hefur verið í ársskýrslur og tíundað á vefsíðu, samfélagsmiðlum og Bæjarins Besta. En sumt hefur aldrei verið sagt. Sögur sem ekki þótti þess virði að skrifa niður. Sögur sem eru einum of mannlegar. Það ólýsanlega fyndna í hinni alvarlegu akademísku starfsemi. Sagan sem er ómögulega alvarlega takandi. Undir yfirskriftinni "Sagan öll" tökum við hér saman nokkrar af þeim og það þarf ekki að taka þær alvarlega, það er bara viðeigandi að rifja upp skemmtilegar sögur á afmælishátíðum.
Hnöttur er aldrei á hvolfi
Árið 2008 var ákveðið að kaupa heimskort til að láta hanga frammi, nemendur koma frá öllum heimshornum og heimskort á gangi Háskólaseturs gerði þessi margvíslegu tengsl áþreifanleg. Hið besta mál. Sigurður Arnfjörð, sem þá vann í Háskólasetri, keypti kort í IKEA, á hagstæðu verði, sem meira að segja smellpassaði í litapallettu Háskólaseturs, grænbrúnblágrátt. Stærðin, litir, allt passaði.
Nema kortið er falskt. Jafnvel svikult. Laumusvikult. En meira um það seinna.
Það tók ekki langan tíma þar til kortinu hafði verið snúið við. Af hverju er kortið á hvolfi!? Hver snéri kortinu við!? Enginn gaf sig fram. Einhver rétti það við, einhver snéri því aftur við, og svona gekk þetta ár eftir ár. Ekki var vitað hver snéri því í hvaða átt, en hnötturinn var greinilega á stöðugum snúningi.
Margir gestir voru undrandi. Jafnvel forsætisráðherra (sá þar síðasti), spurði af hverju kortið væri á hvolfi. Forstöðumaður var auðvitað með svör á reiðum höndum, enda margoft þulið upp: „Hnöttur getur aldrei verið á hvolfi, eða hvað.“ Forsætisráðherra hrekkur við, hér var greinilega um hitamál að ræða, og lyftir höndum til að friðþægja, vön því úr sinni ríkisstjórn, en lexían var ekki búin: Enda kortið galið, falskt, svikult: Grænland er í raun jafn stórt og Alsír, en á kortinu (eins og reyndar á mörgum kortum) er það jafn stórt og öll Afríka. Indland er varla sjáanlegt, um það bil jafn stórt og stórasta landið í heiminum. Kortið nær í norðri til 90. breiddargráðu, en í suðri bara að 70. breiddargráðu, tæplega, og klippir þar með eitt af viðfangsefnum Háskólaseturs af, haf, haf og meira haf. Ekki nóg með það, Evrópa er auðvitað í miðjunni.
Jú jú jú , jú jú jú, alveg rétt, alveg rétt.
Og, að auki: Eiga háskólar ekki að víkka út sjóndeildarhring nemenda og allra sem þar fara um? Opna augu þeirra, gera þau næm fyrir nýrri heimssýn, brjóta upp gamlar venjur, sjá á bak við tjöldin, gera það ómeðvitaða meðvitað...
Þá var forsætisráðherra kominn á flótta, þó lexían héldi áfram.
Ætli forsætisráðherra þessi sitji ekki á árinu 2025 og skrifi sakamálasögu um forsætisráðherra sem reynir að stýra stórasta landi í heimi, í heimi þar sem Indland er varla til og allt hitt er á hvolfi? Kepler stjórnar Nató, Kopernikus Evrópusambandinu, Tyho Brahe er konungur Danmerkur, Galileo Galilei orðinn páfi og hver myrti eiginlega Isaac Newton?
Og svo snýst reyndar allt um sólina nema öll virðumst við snúast um okkur sjálf. Kortið í Háskólasetri heldur áfram að snúast af ósýnilegri hendi. Eins og sólkerfið.
- Forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða