Á föstudaginn 13. September fór fram ráðstefna um félags- og samstöðuhagkerfið í Háskólasetri Vestfjarða. Yfir 50 manns sóttu ráðstefnuna og voru fyrirlestrar jafn áhugaverðir og þeir voru fjölbreyttir. Ráðstefnan hófst á léttum veitingum í boði Háskólaseturs Vestfjarða og Peter Weiss forstöðumaður ávarpaði ráðstefnu gesti og bauð þá velkomna. Hann tilkynnti einnig forföll forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur en hún forfallaðist vegna jarðarfarar.
Eftir það tók forsprakki ráðstefnunnar við, hann Valdimar J. Halldórsson. Hann sagði frá aðdragandanum að ráðstefnunni og fræddi ráðstefnugesti um hvað félags- og samstöðuhagkerfið er. Hann vakti fram spurningar eins og hvernig samfélagið okkar væri ef við hefðum ekki frjálsu félagasamtökin, björgunarsveitirnar, kvenfélögin, íþróttafélögin, Lions og hin ýmsu sjálfboðaliðasamtök. Hann setti síðan formlega ráðstefnuna og bauð fyrsta fyrirlesara velkominn.
Fyrsta erindið átti hún prófessor Linda Lundgaard Andersen, forstöðumaður Miðstöðvar um Félagslega Sjálfbærni í Roskildeháskóla í Danmörku. Hún fjallaði um félags- og samstöðuhagkerfið í dönsku dreifbýli. Á eftir henni kom Dr. Giulia Galera, rannsakandi hjá Evrópsku rannsóknarstofnuninni um samvinnufélög og önnur félagsleg fyrirtæki (Euricse) í Trenton háskóla, Ítalíu. Hennar erindi bar titilinn “Samvinnufélög í dag og í framtíðinni”. Prófessor Linda og Dr. Giulia fluttu báðar erindin sín á ensku en önnur öll önnur erindi fór fram á íslensku. Þær fengu báðar fjöldann allan af spurningum og umræður í kjölfar fyrirlestranna voru áhugaverðar.
Næstur á svið var Magnús M. Norðdal, sérfræðingur á sviði alþjóða- og vinnumarkaðsmála hjá ASÍ. Hans erindi bar titilinn “Félags og samstöðuhagkerfið og sköpun mannsæmandi starfa”. Prófessor Ómar H. Kristmundsson, hjá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands tók við af Magnúsi með erindinu “Ófjárhagsleg félög: Helstu valkostir?”. Þeir Magnús og Ómar fengu einnig góðar viðtökur og svöruðu ófáum spurningum úr sal.
Eftir kaffihlé tóku við fyrirlestrar frá samtökum og félögum á Vestfjörðum sem tilheyra félags- og samstöðuhagkerfinu. Félagsmenn og formenn sögðu frá félögunum og starfsemi þeirra. Fyrstur var hann Ólafur Halldórsson, formaður björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri. Hann fjallaði almennt um starfsemi björgunarsveita og svo sérstaklega um störf hans hjá björgunarsveitinni Björg. Björgunarsveitir eru sennilega eitt þekktasta dæmi á Íslandi um sjálfboðaliðasamtök sem starfa innan félags- og samstöðuhagkerfisins. Á eftir Ólafi steig Elfar Logi Hannesson á svið með erindi um leiklistarhátíðina Act Alone sem er eflaust mörgum kunn. Hann sagði frá því hvernig hún varð til og hver framtíðar plönin eru fyrir hátíðina. Hátíðin er áhorfendum gjaldfrjáls og er ekki rekin í hagnaðarskyni. Næstar komu þær Katrín Ugla Kristjánsdóttir og Rebekka Líf Karlsdóttir hjá tannlæknastofunni Vesturbros í Bolungarvík en þær kynntu svokallaðan samfélagssjóð þar sem hluti af innkomu frá tannlæknastofunni mun renna í sjóðinn sem verður notaður í þágu samfélagsins. Freymar Marinóson var næstur með erindi sem kallaðist “Jafningjaþróun innan og utan kerfisins” og fjallaði um jafningjafræðslu.
Eftir annað sólríkt kaffihlé þar sem margir ráðstefnugestir skelltu sér út á svalir í kaffisopa tók við næsta lota af fyrirlestrum. Hildur Dagbjört Arnardóttir kynnti starfsemi Gróanda á Ísafirði og sagði frá hugtakinu “félagslandbúnaður”. Hún talaði um leiðir sem hún hefur notað til að virkja samfélagið í ræktun og hvernig hún hefur þróað nýjar fjáröflunarleiðir fyrir Gróanda. Á eftir henni var Heiðrún Björk Jóhannesdóttir með erindi um Netagerðina, skapandi vinnustofur í gamla húsnæði Netagerðarinnar á Ísafirði. Hún fjallaði um hvernig vinnustofurnar urðu til og hvernig lífið í Netagerðinni er, en húsnæðið hýsir fjölbreytta starfsemi á ýmsum skapandi sviðum. Næst talaði hún Helga Konráðsdóttir um íslenskukennslu fyrir útlendinga sem kvenfélagið á Suðureyri sinnir í sjálfboðaliðastarfi. Í dag eru nokkrir íslenskukennarar sem voru upphaflega nemar á námskeiðunum. Heilt yfir var mjög vel tekið á móti öllum þessum samtökum og félögum á Vestfjörðum sem tilheyra félags- og samstöðuhagkerfinu með mörgum spurningum og umræðum í lok hvers erindis og ljóst er að mikill áhugi er á starfsemi þeirra.
Eftir að öll erindin voru flutt þá tóku við pallborðsumræður með bæjar- og sveitarstjórum á Vestfjörðum. Viðstaddir voru: Arna Lára Jónsdóttir (Ísafjarðarbær), Jón Páll Hreinsson (Bolungarvík), Þorgeir Pálsson (Strandabyggð) og Gerður Björk Sveinsdóttir (Tálknafjörður og Vesturbyggð). Spyrjandi var Gylfi Ólafsson. Þau fengu spurningar úr sal og frá fyrirlesurum dagsins og umræðurnar voru grípandi í kjölfarið.
Markmiðið með ráðstefnunni var að vekja athygli almennings og bæjaryfirvalda á mikilvægi og margvíslegri starfsemi félaga, stofnanna og einstaklinga innan “Félags og samstöðuhagkerfisins“ fyrir samfélögin á Vestfjörðum. Með góðri þátttöku ráðstefnugesta og með því að hafa bæjar- og sveitarstjóra á Vestfjörðum ekki bara viðstadda á ráðstefnunni heldur einnig sem virka þátttakendur í pallborðsumræðunni erum við sannarlega mörgum skrefum nær markmiðinu eftir þessa ráðstefnu. Háskólasetur Vestfjarða þakkar öllum ráðstefnugestum, fyrirlesurum og pallborðsgestum fyrir komuna og þakkar Valdimari J. Halldórssyni sérstaklega fyrir sína vinnu við ráðstefnuna.
Myndir frá ráðstefnunni: