Á fimmtudag og föstudag þann 3. og 4. október var ráðstefnan “Eyjar og fjölbreytileiki” haldin í Háskólasetri Vestfjarða. Markmiðið með ráðstefnunni var að beina athygli að mikilvægi eyja og afskekktra samfélaga sem eru í sífelldri þróun og er mikilvægt að rannsaka. Eitt af einkennum eyja og afskekktra samfélaga er seigla, líffræðilegur fjölbreytileiki og menningarleg auðlegð. Eyjar og afskekkt samfélög gegna einnig mikilvægu hlutverki í tengslum við alþjóðlega, vistfræðilega og menningarlega arfleið. Með þetta hlutverk í huga miðaði þessi ráðstefna að því að kanna eyjasamfélög út frá þremur yfirgripsmiklum þemum: menningu, tungumáli og menntun.
Á ráðstefnunni voru 4 málstofur með alls 16 erindum. Fyrirlesarar voru með ólíkan bakgrunn og héldu fjölbreytt erindi. Í kjölfarið sköpuðust þverfaglegar umræður eftir hverja málstofu. Eyjarnar sem var fjallað um voru meðal annars Goli Otok í Króatíu, Monte Isola á Iseovatni á Ítalíu, Ísland, Malta, Kyrrahafseyjar, Balí, San Pietro á Ítalíu, Vigur í Ísafjarðardjúpi, St. John’s eyja í Nýfundnalandi og Foula á Hjaltlandseyjum. Yfirlit yfir fyrirlesara og heiti erinda má finna í dagskrá ráðstefnunnar.
Á fimmtudeginum fór hópurinn í hádegismat á Tjöruhúsinu og eftir seinni málstofuna var farið í útsýnisferð á Bolafjall og síðan skálað í freyðivín í Holtsfjöru í Önundarfirði um kvöldið. Á föstudaginn var Vísindaportið með öðru sniði þar sem það var partur af ráðstefnunni og voru meistaranemar Háskólaseturs með svokallaða veggspjaldasýningu í hádeginu þar sem gestir voru velkomnir að ganga um og skoða verkefnin þeirra á göngum skólans.
Fyrirlesarar enduðu síðan föstudaginn á sameiginlegum hátíðarkvöldverði á veitingastaðnum Edinborg. Á laugardaginn héldu fyrirlesararnir heim og var í boði fyrir áhugasama að fara í spennandi ferð um sunnanverða Vestfirði á leiðinni til Reykjavíkur. Stoppað var við fossinn Dynjanda, nálægt Flókalundi, Erpsstaði, Grábrók og Glanna og að lokum náttúrulaugina Kraumu við Deildartunguhver.