Þegar tilkynnt var í byrjun desember hver hlytu styrki frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða mátti sjá nokkur nöfn á blaði sem tengjast Háskólasetri Vestfjarða. Það sýnir sem er að bæði núverandi og fyrrverandi nemendur, sem og starfsfólk, Háskólasetursins eru hugmyndarík og áfjáð um að gefa af sér til samfélagsins á Vestfjörðum eftir að hafa numið og starfað hér.
Í ár hlutu tvö verkefni frjá nemendum styrk, The Arctic Fish Midnight Special hjólreiðakeppnin hlaut 700.000 kr. og Frá Landinu, handverksmunir fyrir heimilið, hlaut 600,000 kr. Að auki fékk Catherine Chambers styrk til að setja upp ljósmyndasýninguna SeaGirls og Ingibjörg Rósa Björnsdóttir fékk styrk fyrir viðskiptaáætlun um Laupinn - hús hrafnanna, en þær starfa báðar hjá Háskólasetri.
Við byrjum á að fjalla um The Arctic Fish Midnight Special en Tyler Wacker er maðurinn á bak styrkinn til þeirra svo við báðum hann að segja okkur nánar frá verkefninu. Tyler er upprunalega frá Bandaríkjunum, frá Texas og Kaliforníu og vakti athygli strax við komuna vestur þegar hann hjólaði þvert yfir Bandaríkin og svo frá Keflavíkurflugvelli til Ísafjarðar.
Á hvaða nám lagðirðu stund hérna og hvenær útskrifaðistu?
Ég útskrifaðist með meistaragráðu úr Haf- og strandsvæðastjórnun síðastliðinn október. Lokaritgerðin mín fjallaði um borgaralaun og heitir Óskilyrtar grunnterkjur sem leið til að styðja við nýsköpun hér á landi.
Og þú hefur sest að á Ísafirði?
Já, ég vinn í ferðþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í hjólreiðum, Cycling Westfjords, og skipuleggur Arna Westfjords Challenge og núna Arctic Fish Midnight Special hjólreiðakeppnina. Með mér í fyrirtækinu eru Lynnee Jacks, sem er núverandi nemandi í Háskólasetri, og Halldóra Björk Norðdal. Við veitum líka upplýsingar til hjólreiðafólks á eigin vegum. Einnig er ég meðeigandi í Fjord Hub, ásamt Lynne Jacks. Við byrjuðum þar með reiðhjólaviðgerðir en erum smátt og smátt að þróa fyrirtækið yfir í alhliða íþróttavöruverslun og íþróttatækjaviðgerðir.
Geturðu sagt okkur nánar frá verkefninu sem fékk styrkinn?
The Arctic Fish Midnight Special er keppnin innan keppni. 100 hjólreiðakappar fá að taka þátt í fjórða og síðasta áfanga Arna Westfjords Way Challenge, sem er um 211 kílómetra langur áfangi frá Patreksfirði til Ísafjarðar. Hugmyndin kom til eftir að við héldum fyrstu Arna Westfjords Way Challenge keppnina síðastliðið sumar, sem var mjög vel heppnuð. Með þessari viðbótaráskorun getur fleira hjólreiðafólk verið með og kynnst tækifærunum í hjólreiðum á Vestfjörðum
Hvernig nýtist styrkurinn ykkur?
Þetta þýðir að við getum náð til fleiri mögulegra samstarfsaðila. Við munum geta farið í forkönnunarhjólatúr í vor og rætt við fyrirtæki og þjónustuaðila á leiðinni. Þar sem hjólreiðakeppnin er með menningarlega tengingu eru þessi fyrirtæki áhugaverðir áningastaðir fyrir keppendur þegar ekki er verið að taka tímann, svo að þau geti varið eins miklum tíma á þessum stöðum og þeir. Einnig getum við hannað meira markaðsefni til að kynna keppnina fyrir áhugasömum sem hafa ekki hjólað hér áður.