Í ljósi þess að alþjóðlegi siðferðisdagurinn var 16. október þá er tilvalið að huga að mikilvægi siðferðislegra ákvarðana í auðlindastjórnun. Það er einmitt það sem meistaranemar í námskeiðinu „Siðferði manna varðandi verndun og auðlindanýtingu“ gerðu í vikunni. Þau fóru í vettvangsferð þar sem þau heimsóttu vatnsaflsvirkjun í Engidal til að fræðast nánar um þróun vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum og þau hagsmunamál sem þar eru uppi. Í námskeiðinu læra nemendur um fjölbreyttar kenningar og reglur þegar kemur að siðferðislegri auðlindastjórnun.
Með vettvangsrannsóknum og hagnýtum verkfærum læra nemendur hvernig á að nálgast siðferðileg álitamál í rannsóknum, áætlunastjórnun, iðnaði og stefnumótun tengdri auðlindastjórnun og svæðisbundinni þróun. Á föstudaginn munu nemendur kynna sínar tillögur um lausnir á siðferðislegum áhyggjum, stórum sem smáum, sem tengjast vatnsaflsþróun á Vestfjörðum. Kennari námskeiðsins er Dr. Marie Schellens, sérfræðingur í umhverfisöryggismálum hjá Pax for Peace í Hollandi.