Meistaranemar UW heimsækja Byggðastofnun

Við fylgjumst spennt með sumarskóla Háskólaseturs sem er á ferðalagi um norðurlandið að læra um ólíka nálgun á snjallfækkun sem hluti af alþjóðlegu samstarfi. Á hverju ári hefur Háskólasetur heimsótt eitt af samstarfslöndum verkefnisins en í ár hýsir Háskólasetur sumarskólann. 24 nemendur frá Lettlandi, Litháen, Eistlandi og Finnlandi bættust í hóp 7 meistaranema í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri ásamt Matthias Kokorsch fagstjóra Sjávarbyggðafræði. Við fjölluðum um fyrstu daga hópsins hér þar sem þau heimsóttu Kröfluvirkjun, þjónustuhúsið Gíg, og Háskólann á Akureyri.

Við höldum áfram að fjalla um sumarnámskeiðið, en fyrir helgi lágu leiðir hópsins á Sauðárkrók þar sem þau heimsóttu Byggðastofnun. Matthias Kokorsch segir hópinn hafa fengið hlýjar móttökur og fékk samtals 5 kynningar. Arnar Már Elíasson forstjóri Byggðastofnunar kynnti meginhlutverk stofnunarinnar, sem er eins og kemur fram á vef Byggðastofnun að “efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu”. Kristján Þ. Halldórsson kynnti verkefnið Brothættar byggðir og Hrund Pétursdóttir kynnti lánveitingar stofnunarinnar og hvernig þær nýtast til eflingu byggðar í landinu. Hópurinn fékk einnig kynningu frá Hönnu Dóru Björnsdóttur sem sagði frá samstarfi Byggðastofnunar og háskóla í landinu. Að lokum fór Sigurður Árnason yfir hlutverk byggðaáætlunar og hvernig aflamark Byggðastofnunar nýtist í dreifðum byggðum.

Matthias segir að kynningarnar sköpuðu líflegar umræður í lokin og vonar að það verða fleiri tækifæri í framtíðinni fyrir Háskólasetur til að heimsækja Byggðastofnun, sérstaklega í ljósi þess hve mikið stofnunin tengist kjarna byggðafræðinámsins hjá Háskólasetri, þ.e. meistaranámsins í Sjávarbyggðafræði

Eftir heimsóknina í Byggðastofnun hélt hópurinn til Siglufjarðar og skoðaði sig um og fékk sér hádegismat. Siglufjörður er að taka miklum breytingum og verður einn þeirra staða sem verður notaður fyrir tilviksrannsókn í sumarskólanum. Því var tilvalið að kynnast bænum aðeins áður en haldið var áfram til Akureyrar. Hópurinn endaði daginn þar, þar sem þau fengu kynningu frá deiliskipulagsstjóra og borgarráði Akureyrar og heimsótti Vistorku sem stuðla að framleiðslu umhverfisvæns eldsneytis með sjálfbærri nýtingu hráefnis sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu.

Við fylgjumst áfram spennt með hópnum og hlökkum til að segja frá framhaldinu.