Kanna tækninýjungar og gervigreind í hafskipulagi

Háskólasetur Vestfjarða hefur hlotið styrk fyrir verkefni sem snýr að hlutverki staðbundinnar þekkingar í hafskipulagi fyrir græna þróun á tímum stafrænna umbreytinga og loftslagsbreytinga. Verkefnið kallast á ensku: “The role of local knowledge in marine spatial planning for a just green transition in times of digital transformation and climate change” og er styrkt af vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um fiskveiðar (AG-Fisk). Vinnuhópurinn AG-Fisk er framkvæmdaaðili samstarfs á sviði fiskveiða og fiskeldis.

Háskólasetur Vestfjarða verður verkefnastjóri verkefnisins en það mun standa yfir í tvö ár. Háskólasetrið verður í nánu samstarfi við Nordregio, sem er norræn fræðastofnun í skipulags- og byggðamálum sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Hlutverk Nordregio er að stunda rannsóknir á sviði skipulags- og byggðamála auk þess að þróa og miðla þekkingu um byggða- og skipulagsmál til viðeigandi stofnana innan þessara málaflokka á Norðurlöndum. Háskólasetur Vestfjarða verður einnig í nánu samstarfi við Háskóla hálanda og eyja í Skotlandi (UHI), en háskólinn er með starfsstöðvar víða um skosku hálöndin og eyjarnar í kring og býður upp á fjölda námsleiða í alls 12 skólum.

Í verkefninu verða fjölbreyttar aðferðir notaðar til að takast á við áskoranir og tækifæri sem felast í því að samtvinna endurnýjanlega orku og matvælaframleiðslu úr sjávarafurðum á Norður-Atlantshafssvæðinu. Einblínt verður á það hvernig hægt sé að innleiða staðbundna þekkingu og gögn í hafskipulagi. Einnig verður sérstök áhersla lögð á tækninýjungar. Skoðað verður hvernig hægt er að nota stafrænar lausnir og gervigreind til að efla sjálfbærar vinnuaðferðir á hafsvæðum, hagþróun og félagslega velferð. Einnig verður sérstök áhersla lögð á dreifbýli og afskekkt svæði.


Háskólasetur Vestfjarða