Nýnemadagar hófust formlega í dag þar sem tekið var á móti fjölbreyttum og skemmtilegum hópi nemenda sem hefja nú meistaranám við Háskólasetur Vestfjarða. Hópurinn samanstendur af nemendum frá mörgum löndum og með ólíkan bakgrunn.
Dagurinn hófst á því að nemendurnir hlustuðu á stuttar ræður og kynningu á starfsfólki háskólasetursins. Að því loknu steig forstöðumaðurinn Peter Weiss í pontu og sagði sögu setursins, þá með stuttum frásögnum sem lýsa þróun og árangri sem hefur átt sér stað. Deginum var þó ekki bara eytt í ræðuhöld, heldur var fljótlega farið út í portið þar sem fagstjórarnir Brack Hale og Matthias Kokorsch stýrðu leikjum sem hjálpuðu nemendum og starfsfólki að kynnast betur. Sem dæmi má nefna leik þar sem nemendur og starfsfólk áttu að mynda kort með því að raða sér niður á lönd, og leik þar sem raða átti sér í eina línu eftir afmælisdag án þess að tala saman. Þessir leikir voru gerðir til að sýna hinn mikla fjölbreytileika nemenda og kennara, sem háskólasetrið fagnar og sameinar einstaklinga með mismunandi bakgrunn í leit að þekkingu.
Eftir vel heppnaða leiki úti, flýttu nemendur og starfsmenn inn í sameiginlegan hádegismat, þar sem pizza var á boðstólum. Eftir hádegismatinn fóru nemendur og starfsfólk í göngutúr um Ísafjörð. Nemendur fengu leiðsögn um bæinn, þar sem farið var yfir sögu hans og menningu. Leiðsögnin endaði á Dokkunni, sem er brugghús í bænum, þar sem umræður héldu áfram. Þetta var kærkomið stopp fyrir marga, enda mikið ferðalag að baki.
Haldið verður áfram með nýnemadaga á morgun þar sem nemendur fá frekari kynningu á náminu frá fagstjórunum Brack og Matthias.