HV hlýtur styrk fyrir „ARCHAIC“ verkefnið á Norðurslóðum frá NordForsk

Háskólasetur Vestfjarða (HV) hefur hlotið styrk frá NordForsk fyrir „ARCHAIC“ verkefnið (Sustainable and Resilient Communities in Remote Settlements in the Arctic in the Age of Climate Change). Meginmarkmið verkefnisins er að skapa nýja þekkingu um aðlögun að loftslagsbreytingum og viðbrögð við náttúruvá í afskekktum samfélögum á Norðurslóðum, með áherslu á sjálfbærni og seiglu.

Markmið rannsóknarinnar eru einnig að þróa nýja þekkingu og lausnir sem tengjast fimm þáttum. Fyrsti þátturinn er áhættumat vegna loftslagsbreytinga og seiglu samfélaga – að kortleggja helstu áhættur sem steðja að samfélögum á Norðurslóðum og meta hvernig þau geta brugðist við þeim. Annar þáttur er viðvörunarkerfi – að bæta fyrirsjáanleika og viðbragðsáætlanir með þróun og innleiðingu árangursríkra viðvörunarkerfa fyrir náttúruvá. Þriðji þáttur er brottflutningur frá áhættusvæðum – að skoða hvernig samfélög geta undirbúið og framkvæmt flutning í kjölfar aukinnar náttúruváar og loftslagsbreytinga. Fjórði þátturinn er neyðarviðbúnaður og áfallastjórnun – að styrkja getu samfélaga til að takast á við neyðarástand og lágmarka áhrif náttúruhamfara með markvissum viðbúnaði. Fimmti og seinasti þátturinn er miðlun reynslu af aðlögun að loftslagsbreytingum frá Norðurslóðum – að nýta innsýn og lærdóm úr rannsókninni til að styðja við önnur svæði sem glíma við svipaðar áskoranir.

Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranámsins í Sjávarbyggðafræði, sótti um styrkinn og tók við honum fyrir hönd UW í harðri samkeppni. Af um 200 umsóknum sem bárust NordForsk fengu aðeins níu verkefni styrk, þar af tvö með þátttöku HV. NordForsk hefur varið meira en 330 milljónum norskra króna í þessi níu verkefni sem hluta af stórri fjárfestingu á Norðurslóðum. „ARCHAIC“ er þriggja ára verkefni sem lýkur árið 2028.

HV mun leiða rannsóknir á mögulegum brottflutningi samfélaga frá áhættusvæðum og mun Matthias vinna í samstarfi við Jóhönnu Gísladóttur frá LBHÍ og samstarfsaðila í Danmörku og Noregi. Rannsóknarteymið er þverfaglegt en samfélagslegt öryggi hefur hingað til lítið verið skoðað í samhengi við loftslagsbreytingar, náttúruvá og aðlögun. Reynsla frá heimskautasvæðum mun nýtast víðar á Norðurslóðum og um heim allan.