HV fær veglega gjöf frá Þorsteini Jóhannessyni og Margréti Hreinsdóttur

Mynd af sambærilegum skjá
Mynd af sambærilegum skjá

Háskólasetur Vestfjarða (HV) fékk afar veglega gjöf á opnu húsi sem haldið var nýlega í Vestrahúsi. Um er að ræða 86” skjá sem heitir Maxhub XBoard MTR og sameinar fundarskjá, Teams Rooms fjarfundabúnað, tússtöflu og þráðlausan tengibúnað í eitt og sama tækið. Gjöfin er frá þeim Þorsteini Jóhannessyni og konu hans Margréti Hreinsdóttur. Þorsteinn Jóhannesson er Ísfirðingum kunnugur sem f.v. yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsi í nær 30 ár. Þorsteinn hefur líka verið virkur í sveitarstjórnarmálum og ekki síst hefur hann beitt sér fyrir stofnun HV og er fyrirtæki Þorsteins, Skurðlæknirinn ehf., einn af stofnaðilum þess.

Astrid Fehling, kennslustjóri HV, segir að það geti verið áskorun fyrir litla stofnun á háskólastigi á landsbyggðinni að vera í takt við tímann og halda sambandi við umheiminn. Við erum afar þakklát fyrir alla þá aðstoð og traust sem við getum fengið til að veita nemendum og kennurum góða kennsluaðstöðu.” -segir Astrid. Þetta tæki mun nýtast okkur afar vel fyrir komandi varnir í apríl, í kennslustundum, fyrir gestafyrirlestra og á fjarfundum til dæmis með samstarfsfólki okkar við HA. Við erum mjög spennt að skoða tækið og þökkum kærlega fyrir okkur. - bætir hún við.

Þorsteinn hefur verið formaður fulltrúaráðs Háskólaseturs frá stofnun og fram að árinu 2014, sem sé heil 10 ár af 20, 50% allra funda og verið þátttakandi í mikilvægum stefnumótandi ákvörðunum strax í upphafi. Formaður fulltrúaráðs er ekki í stjórn en situr stjórnarfundina. Vert er að benda á að starf formanns fulltrúaráðs er ólaunað eins og störf stjórnarmanna Háskólaseturs frá upphafi og er það eitt og sér mikil meðgjöf til Háskólaseturs að fá alla þessa þekkingu og reynslu stjórnarmanna og formanna fulltrúaráðs á öllum tímum, og það ókeypis. Ekki að tala um þegar f.v. formaður fulltrúaráðs kemur með veglega gjöf í tilefni tuttugu ára afmælis, sem HV hefði seint átt ráð til að skaffa.

HV þakkar Þorsteini og Margréti fyrir þessa veglegu gjöf.