Franskir starfsnemar hjá Háskólasetri

Björn Erlingsson leiðbeinandi ásamt starfsnemendum frá SeaTech Toulon.  Hafi fyrirtæki á Vestfjörðum…
Björn Erlingsson leiðbeinandi ásamt starfsnemendum frá SeaTech Toulon. Hafi fyrirtæki á Vestfjörðum áhuga á að hýsa verknema getur Háskólasetrið aðstoðað við að finna nemanda og leysa ýmis formsatriði.

Mörg ný andlit eru í Háskólasetri Vestfjarða þessa dagana þar sem 13 meistaranemar frá Toulon háskólanum í suður Frakklandi eru í starfsþjálfun hjá Háskólasetri Vestfjarða í samtals 17 vikur. Starfsnemarnir eru meistaranemar í hafeðlis- og hafverkfræðinámi við sjávarverkfræðideild og eru hér í starfsþjálfun undir handleiðslu Björns Erlingssonar.

Starfsnemar frá Toulon hafa komið til Háskólaseturs Vestfjarða síðan 2015. Þeir eru þó óvenju margir í ár, enda samsvara 13 nemendur í eina önn fjórum til fimm heilsársnemendum. Hingað til hefði verið erfitt að koma slíkum hóp fyrir, en með tilkomu nemendagarða bjóðast nýir möguleikar til á færa út kvíarnar.

Starfsnemarnir í ár fást við tæknileg atriði sem tengjast hafi og strandsvæðum. Þeir munu vinna í verkefnum sem tengjast breytingum í hafi umhverfis Ísland og munu þróa aðferðir fyrir samþættingu gagna úr mismunandi kerfum sem mun auka notagildi, greinigetu og innsæi í þær afleiðingar sem þessar breytingar á hafsvæði Íslands hafa. Verkefnin eru fjölbreytt og eru á sviði gagnaúrvinnslu, miðlunar og líkanagerðar af haffræðilegum toga. Verkefni þeirra geta virkað ansi tæknileg og fjarlæg við fyrstu sýn, en ef betur er að gáð má sjá að í raun tengjast þau ansi vel raunveruleikanum hér á Vestfjörðum.

Sjógerðir
Starfsnemarnir munu skoða svokallaðar sjógerðir, en það er fræðihugtak fyrir hita og seltustig sjávar á tilteknu bili sem eru einkennandi fyrir hafsvæðið sem sjógerðirnar eru kenndar við, eins og Atlantsjór, pólsjór og Grænlandshafssjór. Starfsnemarnir munu draga fram hvernig sjógerðirnar hafa mótandi áhrif á lífsskilyrði í hafinu. Þeir munu þróa framsetningu í hljóði og mynd á sjógerðunum sem eykur skilning og innsæi í blöndun og hreyfingu þeirra. Starfsnemarnir fást því ekki einungis við útreikninga, heldur líka við framsetningu gagna svo almenningur getur skilið þau. Það er mikilvægt að verkfræðingar læra að setja fram sínar niðurstöður þannig að almenningurinn skilji og getur tekið ákvarðanir sem byggja á gögnum. Hvernig nemur einhver sem ekki þekkir vel til hvernig volgur sjór og kaldur sjór blandast, hvernig saltur sjór og ferskvatn blandast – eða blandast einmitt ekki og seint.

Frumframleiðni dýra- og plöntusvifs
Annað áhugavert verkefni sem starfsnemarnir munu vinna að er að skoða frumframleiðni dýra- og plöntusvifs. Frumframleiðni er myndun lífrænna efna við ljóstillífun í yfirborði hafsins líkt og hjá landplöntum. Frumflamleiðnin sem um ræðir er háð blöndun næringarefna, en loftslagsbreytingar hafa síðan áhrif á þessa blöndun. Til að rannsaka frumframleiðnina verður notast við niðurstöður úr eðlisfræðilegum og hafefnafræðilegum líkönum af frumframleiðni dýra- og plöntusvifs og gerð verður greining á þeim. Gögnin sem unnið er með byggjast á Hafvöktunarþætti Copernicusáætlunarinnar, CMEMS (Copernicus Marine Enviromental Monitoring System) sem eru unnin af fremstu vísindastofnunum hver á sínu sérsviði og Copernicus-áætlunin beitir sér fyrir virku gæðaeftirliti gagna og stöðugum endurbótum á reiknilíkönum eftir því sem mælingar í hafinu aukast og þekkingu fleytir fram. Fyrri hópar verknema frá SeaTech Toulon hafa unnið að líkanagerð þar sem hægt var að meta frumframleiðni dýra- og plöntusvifs m.v. hitastig sjávar, blöndun, lagskiptingu, strauma og sjávarstöðu.

Veiðireynsla og fiskistofnar
Þriðja verkefnið tengist veiðireynslu og fiskistofnum. Greining verður gerð á mögulegum tengslum milli skráðrar veiðireynslu fyrri ára og mismunandi vaxtarskilyrðum fiskistofna sem fylgja hafeðlisfræðilegum og hafefnafræðilegum þáttum eins og þau koma fyrir í opinberum gögnum Copernicus Stofnunarinnar. Til er ógrynni af gögnum um veiðireynslu skipa á Íslandsmiðum, en hvað er hægt að gera við þessi gögn? Ef hægt er að setja þessi gögn í samhengi við líkön og gögn eins og þau koma fyrir í opinberum gögnum Copernicus Stofnunarinnar og sýna ástand hafsins hverju sinni er hugsanlega hægt að spá betur fyrir vaxtarskilyrði nytjastofna.

Hafís
Fjórða verkefnið er um hafísbreiðu í Pólhafinu. Starfsnemarnir munu þróa aðferðir við úrvinnslu á mælingum á misgengi í hafísbreiðunni til að ákvarða brotþol og þrýsting í heimskautaísnum og nota þær upplýsingar í eðlisfræðilegum líkönum fyrir vöxt og hnignun á þykkt og útbreiðslu hafíss. Fyrir nokkrum árum hafði Björn Erlingsson framgöngu um að fá rannsóknarflugvél bandaríska hersins hingað til Háskólseturs Vestfjarða til að taka loftmyndir af hafís með því markmiði að geta sýnt fram á það hvernig ísinn myndast og undir hvaða skilyrðum hann brotnar og hverfur. Þetta er mikilvægur liður í að spá fyrir um áhrif loftslagsbreytinga, en er sömuleiðis mikilvægt fyrir skipaumferð á hafíssvæðum.

Markmiðið með verkefnunum fjórum er að sú þjónusta sem verður þróuð í kjölfarið, mun stuðla að ríkari upplýsingamiðlun og færa fram nýja þekkingu og innsæi þegar upplýsingar úr mismunandi kerfum umhverfis, veiða og samfélags sameinast. Verkefnin verða unnin í samstarfi við ýmsa aðila. Við fylgjumst spennt með vinnu starfsnemanna og hlökkum til að deila framförum í verkefnunum.