Það var mikið um að vera á höfninni á Ísafirði þegar einingarnar fyrir aðra byggingu stúdentagarðanna voru affermdar. Um er að ræða einingarhús sem koma forsmíðuð frá fyrirtækinu Seve í Eistlandi og koma allir smiðirnir sem að verkinu vinna einnig þaðan.
Annað húsið er langt komið, búið að reisa þakið og halda reisugilli að gömlum sið, en stefnt er að því að nemendur geti flutt þar inn í september. Vinna við hina bygginguna fer á fullt nú þegar einingarnar eru komnar og stefnt er að því að hún verði tilbúin nokkrum mánuðum á eftir hinni.
Ekki spillir að veðrið á Vestfjörðum er ekkert að tefja framkvæmdir utanhúss í dag, öfugt við suðvesturhornið þar sem vorið er meira hikandi en hér á Ísafirði.