Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða og Jóhanna Gísladóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands hafa verið að rannsaka samspil staðartengsla og náttúruváar sem hluti af CliCNord verkefninu. CliCNord verkefnið fjallar um hvernig hægt sé að auka getu lítilla samfélaga á Norðurlöndunum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins er að skoða hversu undirbúin lítil samfélög eru til að takast á við slíkar áskoranir, hvaða skilning þessi samfélög hafa á sínum aðstæðum, hvernig hæfni íbúa getur hjálpað til við að byggja upp getu samfélagsins og í hvaða aðstæðum þessi samfélög þurfa aðstoð. Verkefnið gengur út frá því að náttúruvá mun hafa aukin áhrif á þessi samfélög vegna loftslagsbreytinga en það sem hefur verið skoðað í CliCNord verkefninu er til að mynda ofanflóð, stormar, flóð og gróðureldar. Alls eru 8 rannsóknir unnar í 5 löndum: Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Færeyjum og Íslandi.
Matthias og Jóhanna eru hluti af íslenska teymi CliCNord sem rannsakaði ofanflóð. Þau unnu sína rannsókn á Vestfjörðum þar sem þau beittu tilviksrannsókn með þátttakendum frá Patreksfirði og Flateyri. Þátttakendurnir tóku þátt í rýnihópum og einstaklingsviðtölum en einnig voru tekin viðtöl við sérfræðinga í ytra viðbragðskerfi landsins. Niðurstöður þeirra sýndu að íbúar beggja bæjarfélaga sýna mikil staðartengsl (place attachment) bæði gagnvart náttúrunni og samfélaginu. Jákvæð áhrif þessara staðartengsla birtast í sjálfboðaliðastörfum og virkni í samfélaginu sem geta aukið viðbúnað og aðlögunarfærni bæjarfélaganna. Neikvæð áhrif staðartengslanna eru minna áberandi en þau jákvæðu en þau eru að íbúar telja bæinn sinn ekki vera í viðkvæmri stöðu þrátt fyrir hættuna á ofanflóði.
Matthias tók einnig nýlega þátt í ráðstefnu í Enschede í Hollandi sem kallast NEEDS (North European Emergency and Disaster Studies) þar sem hann kynnti niðurstöður úr rannsókninni. Hann hélt einnig pallborðsumræðu um hvernig rannsóknir geta hjálpað samfélögum að styrkja færni og ferla til að aðlagast síbreytilegum heimi. Ein kynningin byggði á niðurstöðum tveggja framúrskarandi meistaraverkefna eftir nemendur Háskólaseturs Vestfjarða, þau Aine Lyones og Frances Simmons. Á ráðstefnunni var einnig tilkynnt að rannsókn Matthiasar og Jóhönnu hefur verið birt í tímaritinu Regional Environmental Change. Greinin er opin almenningi og hana má lesa hér.