Meistaranemar í Sjávarbyggðafræði fóru nýlega í þrjár vettvangsferðir sem hluti af námskeiðinu „Fólkið og hafið: Landfræðilegt sjónarmið“. Á þessum þremur vikum sem námskeiðið stóð yfir heimsóttu nemendur nærliggjandi byggðir þar sem þau kynntust sögulegri þróun svæðisins, félags- og efnahagslegum áskorunum íbúa, og hvernig samfélögin aðlagast loftslagsbreytingum. Vettvangsferðirnar veittu nemendunum innsýn í það hvernig Vestfirðir reyna að samræma ný tækifæri í ferðaþjónustu og fiskeldi með sjálfbæra innviði og umhverfisvernd í huga.
Fyrstu vikuna fengu nemendurnir kynningu á Ísafirði þar sem þau lærðu um sögulega þróun staðarins og áskoranir nútímans. Umræður snerust meðal annars um þá uppbyggingu sem einkenndi svæðið í kjölfar útgerðar og sjávarútvegs í byrjun síðustu aldar, en einnig þá hnignun sem varð seinna meir vegna samgönguerfiðleika, náttúruváar og félagslegra- og efnahagslegra áskoranna. Nemendurnir fræddust einnig um það að í dag hafa ferðaþjónusta og fiskeldi skapað ný tækifæri í atvinnumálum og auknir innviðir eru til staðar gegn náttúruvá, sérstaklega gagnvart snjóflóðum. Einnig eru samgöngur betri, sem tengir svæðið betur við aðra hluta landsins. Einnig var fjallað um þær áskoranir sem eru ennþá til staðar eins og eftirspurn á húsnæðismarkaði vegna ferðaþjónustu, iðnaðarstarfsemi sem hefur neikvæð áhrif á vistkerfið og nauðsynlegar úrbætur á samgöngum.
Í seinni viku námskeiðsins fóru nemendur í vettvangsferð til Flateyrar og Bolungarvíkur. Þessi svæði eru góð dæmi um aukna áhættu af náttúruvá í tengslum við loftslagsbreytingar og hvernig samfélög aðlagast þeim. Í Bolungarvík var komið við á Óshlíðinni og fengu nemendurnir að upplifa eyðileggingu gamla vegsins sem göngin leystu af en einnig var farið upp á Bolafjal. Á Flateyri sáu nemendurnir varnagarða sem vernda bæinn frá snjóflóði.
Þriðju og síðustu vikuna fór hópurinn í heimsókn að Mjólkárvirkjun, þar sem þau lærðu um sögu virkjunarinnar, daglegan rekstur hennar og framtíðarþróun orku kerfisins á Vestfjörðum. Hópurinn fékk annan blíðviðrisdag og nýttu tækifærið og heimsóttu Dynjanda. Það vakti áhuga nemenda að hugsa til þess að fyrir um öld síðan var það til skoðunar að nýta fossinn til virkjunar.
Á síðasta degi námskeiðsins kynntu nemendurnir veggspjöld á ráðstefnunni „Eyjar og fjölbreytileiki“ sem haldin var í Háskólasetrinu þann 4. október. Veggspjöldin sýndu einstakar eyjar víðsvegar að úr heiminum og var notast við kerfisbunda hugsun til að skýra þróun þeirra. Dæmi um eyjur sem var fjallað um í veggspjalda kynninguni var Norður-Sentinel eyja þar sem ættbálkar lifa enn einangraðir frá meginlandi Indlands og Jeju-eyja við Kóreu sem fær til sín gríðarlegan fjölda ferðamanna. Veggspjöldin vöktu áhugaverðar umræður meðal nemenda og ráðstefnugesta.